Magnaður Eins og sjá má er lávarðurinn ekki eingöngu sérstæður persónuleiki, heldur vekur klæðaburður hans eflaust athygli hvert sem hann fer. Í bakgrunni má sjá málverk eftir hann, m.a. sjálfsmynd.
Magnaður Eins og sjá má er lávarðurinn ekki eingöngu sérstæður persónuleiki, heldur vekur klæðaburður hans eflaust athygli hvert sem hann fer. Í bakgrunni má sjá málverk eftir hann, m.a. sjálfsmynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is „ÞETTA er einhver sérstæðasti maður sem ég hef hitt,“ segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason um Bath lávarð sem hann hitti á Englandi í síðustu viku.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÞETTA er einhver sérstæðasti maður sem ég hef hitt,“ segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason um Bath lávarð sem hann hitti á Englandi í síðustu viku. Andri Snær var að lesa upp úr Draumalandinu sem kemur út á Bretlandseyjum á næstu dögum, og las hann meðal annars upp í smábænum Frome. Í kjölfarið heimsótti hann lávarðinn sem býr þar nærri.

„Það voru einhverjar sýningar á dagskránni í Frome líka, og þar voru þrjár af hjákonum hans að sýna listaverk. Hann hefur nefnilega átt einhverjar 70 svona hjákonur, og oft 10 eða 20 í einu,“ segir Andri Snær og hlær, en Bath er einn ríkasti maður á Englandi og býr í risastórum kastala. „Hann er eins og blanda af Stórval og Hugh Hefner, eins ólíklega og það hljómar. Kastalinn hans er allur skreyttur með veggmyndum og lágmyndum eftir hann sjálfan. Hann virðist hafa verið listamaður þegar hann var yngri, en svo virðist hann hafa lent all-svakalega í hippatímanum og hans gildi virðast vera leifar af því. Allar þessar konur mega nefnilega eiga aðra ástmenn og hann telur þetta mun eðlilegra en raðkvæni nútímamanna. Hann er búinn að mála myndir af þeim öllum og raða þeim niður stóran hringstiga. Þær eru sumar merktar með ártölum eftir því hvenær þær voru kærusturnar hans.“

Andri Snær segir að heimsóknin hafi verið eins og hann ímyndar sér að væri að koma heim til Frank-N-Furter úr Rocky Horror Picture Show . „Við fengum til dæmis að sjá kama sutra-herbergið hans sem hann er búinn skreyta sjálfur. Þar eru til dæmis sex nashyrningshorn á rúmstokknum, þau eru talin örva kynhvötina. Það sem er þó hvað merkilegast við þau er að hann ræktaði hornin sjálfur, hann var sem sagt með nashyrninga á landareigninni sinni. Þannig að þetta er bara breskur aðall eins og hann gerist súrrealískastur,“ segir Andri Snær, en ein af kærustum lávarðarins hafði lesið Draumalandið og kom þeim í samband í kjölfarið.

Bónusljóð og Blái hnötturinn

Aðspurður segist Andri Snær annars ánægður með Bretlandsferð sína, en auk Frome las hann upp í Bristol. Draumalandið hefur verið fáanleg á ensku á Amazon um nokkurt skeið, en hún kemur í verslanir á Englandi á allra næstu dögum.

Andri Snær segir að viðbrögðin í Frome hafi verið sérstaklega góð. „Þetta er svona 20 til 30 þúsund manna bær með nokkuð háan eðlismassa af fólki, þarna hefur alls konar fólk komið sér fyrir. Einn maður sem ég hitti er til dæmis með sólarpanel á þakinu hjá sér, og hann flytur rafmagn út úr húsinu sínu. Hann framleiðir sem sagt meira rafmagn en hann notar.

En það var sem sagt góð mæting í Frome, líklega á bilinu 80 til 90 manns. Ég var líka í London og fór þar á upplestur hjá nokkuð þekktum rithöfundi, en þar voru færri. Þannig að ég var ánægður með þetta,“ segir Andri Snær og bætir því við að um helmingur þeirra sem komu á upplesturinn hafi keypt Draumalandið .

Auk þess að lesa upp úr Draumalandinu las Andri Snær bæði upp úr Lovestar , Bónusljóðum og Bláa hnettinum á ensku, en búið er að þýða bækurnar þótt þær séu að vísu ekki enn komnar út á ensku.

Andri Snær gerir ráð fyrir að fara nokkuð oft til Englands á næstu mánuðum til að fylgja Draumalandinu eftir. Þar að auki kemur bókin líklega út í Danmörku og Japan á næsta ári, og því ljóst að fagnaðarerindið berst víða.

Einstaklega litríkur karakter

Bath lávarður er m.a. þekktur fyrir skrautlegan klæðaburð og kvenhylli

BATH lávarður heitir fullu nafni Alexander George Thynn, 7th Marquess of Bath. Hann fæddist hinn 6. maí árið 1932 og er því 76 ára gamall. Hann fæddist í London en ólst upp á ættaróðalinu Longleat, og býr þar enn. Óðalið er frá 18. öld og þykir hið glæsilegasta, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Lávarðurinn hefur skrifað allnokkrar bækur og sat um tíma í lávarðadeild breska þingsins.

Hann hefur vakið mikla athygli í heimalandi sínu fyrir mikið frjálsræði í kvennamálum og hefur hann átt fjölmargar hjákonur, eða „wifelets“.

Hann er hins vegar giftur hinni ungversku Önnu Gael Gyarmathy og á með henni tvö börn, Lady Lenku Thynn og Ceawlin Thynn.

Þá er hann ekki síður þekktur fyrir afar sérstakan klæðaburð sinn.

Samkvæmt lista Sunday Times yfir ríkasta fólk á Bretlandseyjum árið 2005 var lávarðurinn í 382. sæti. Eignir hans voru þá metnar á 120 milljónir punda, sem nemur að minnsta kosti 20 milljörðum íslenskra króna.