ÁGÆTLEGA gekk að þjónusta almenna viðskiptavini í bönkum í gær. Hægt var að taka innstæður út af venjulegum tékka- og sparireikningum, en hins vegar var erlendur gjaldeyrir skammtaður upp að vissu marki.

ÁGÆTLEGA gekk að þjónusta almenna viðskiptavini í bönkum í gær. Hægt var að taka innstæður út af venjulegum tékka- og sparireikningum, en hins vegar var erlendur gjaldeyrir skammtaður upp að vissu marki. Að sögn talsmanna bankanna voru þó mjög fá tilfelli þar sem þurfti að takmarka gjaldeyrisúttektir. Almennt var miðað við hámark að andvirði 250.000 króna, því hvert og eitt útibú liggur ekki á ótakmörkuðu magni gjaldeyris frá degi til dags. Fullyrt er að unnið verði að því að útvega útibúum meiri gjaldeyri á morgun, svo ekki þurfi að færa þessar takmarkanir neðar.

Áfram var lokað fyrir viðskipti í öllum sjóðum bankanna, en í Glitni var lokað fyrir viðskipti í öllum sjóðum nema ríkisskuldabréfasjóðum og erlendum sjóðum. Mjög mikið var að gera í útibúum Landsbankans í gærmorgun, fram til klukkan ellefu, þegar blaðamannafundur forsætis- og viðskiptaráðherra hófst í Iðnó.

onundur@mbl.is