Eftir Bjarna Ólafsson og Höllu Gunnarsdóttur TILGANGURINN með mögulegu láni frá Rússum er ekki að ráðast í framkvæmdir eða lánastarfsemi hér heima fyrir heldur að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Þetta kom fram í máli Geirs H.

Eftir Bjarna Ólafsson og

Höllu Gunnarsdóttur

TILGANGURINN með mögulegu láni frá Rússum er ekki að ráðast í framkvæmdir eða lánastarfsemi hér heima fyrir heldur að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í gær.

Hafnar verða viðræður við Rússa innan fárra daga um allt að fjögurra milljarða evra lán til íslenska ríkisins, andvirði um 620 milljarða króna.

Á blaðamannafundi í Iðnó í gær sagði Geir að Ísland hefði allt þetta ár leitað hófanna hjá vinaþjóðum um gjaldeyrisskiptasamninga, en án árangurs. „Þá þurftum við að leita að nýjum vinum, sagði Geir.“ Ljóst er að í orðum Geirs fólst gagnrýni á bandaríska seðlabankann, en hann hafði fyrr í haust gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, en hafði ekki talið ástæðu til að gera slíkan samning við Íslendinga.

Rússneski sendiherrann hringdi í Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í gærmorgun og impraði á möguleikanum á 4 milljarða evra láni til íslenska ríkisins. Kom þetta fram í viðtali við Davíð í Kastljósi Sjónvarpsins í gær.

Sagði Davíð að fjármálaráðherra Rússa hefði sagt að viðræðurnar yrðu teknar með jákvæðu hugarfari og að Pútín hafi heimilað að þær færu fram. Sagðist Davíð bjartsýnn á að samningar næðust. Líkt og forsætisráðherra gaf Davíð til kynna óánægju með hefðbundnar vinaþjóðir Íslendinga. „Þeir vita einnig að þetta er vinarbragð í erfiðleikum og menn taka eftir því hér á landi af því að maður hefði haldið að einhverjir aðrir í okkar heimshluta myndu frekar sjá skyldur sínar eða vinsemd við okkur en þeir.“

Í hnotskurn
» Yfirlýsingar vegna málsins voru misvísandi í gær og snemma í gær sagði Seðlabankinn lánið í höfn.
» Svo kom fram í rússneskum fjölmiðlum að svo væri ekki.
» Í kjölfarið var sagt að ákveðið hefði verið að hefja viðræður við Rússa.