Umferðaróhöppum þar sem slys hafa orðið á fólki hefur fækkað nokkuð á höfuðborgarsvæðinu, eða um 15 prósent fyrstu sjö mánuði ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í slysaskrá Umferðarstofu.

Umferðaróhöppum þar sem slys hafa orðið á fólki hefur fækkað nokkuð á höfuðborgarsvæðinu, eða um 15 prósent fyrstu sjö mánuði ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í slysaskrá Umferðarstofu. Ef skoðaðir eru helstu slysastaðir höfuðborgarsvæðisins síðastliðið eitt og hálft ár hafa þau flest orðið á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar, eða fjórtán talsins. Tíu slys hafa á sama tíma átt sér stað á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Bústaðavegar austan Bústaðavegarbrúar.

Þá hafa átta slys orðið á vegkafla á Miklubraut milli eystri aðreinar á Réttarholtsvegi og vestari aðreinar á Reykjanesbrautar, og sjö slys á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Lögreglan hefur haldið uppi sérstöku eftirliti á þeim gatnamótum þar sem slysin hafa verið flest og á tímum þegar umferðarþunginn er hvað mestur. Markmiðið er að hvetja ökumenn til aukinnar aðgæslu og verður því haldið áfram.