Haraldur Sigurjónsson fæddist á Eskifirði 7. ágúst 1936. Hann lést á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi 20. september síðastliðinn og fór útför hans fram frá Digraneskirkju 26. september.

Mig langar í fáum orðum að minnast góðs félaga til margra ára, Haralds Sigurjónssonar sem lést á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi laugardaginn 20. september eftir erfið veikindi.

Já, margt kemur upp í hugann, við vorum nágrannar í um fjóra áratugi. Ég kynntist Haraldi og fjölskyldu þegar þau áttu heima í Álfabrekku í Kópavogi. Margar ferðirnar fórum við saman til veiða eða austur til að kíkja á bústaðina okkar.

Það var mjög skemmtilegt að umgangast Halla, en hann var mjög fróður um marga hluti og kunni afburða vel að segja frá og hafði léttan húmor sem var bara mannbætandi. Það kom stundum fyrir þegar ég kom í heimsókn að Haraldur sat og tefldi skák við tengdaföður sinn hann Leif Eiríksson og það var hart tekist á enda mættust þar stálin stinn. Leifur var mjög góður skákmaður og Haraldur líka. Þetta voru oft snarpar snerrur sem gaman var að horfa á.

Að lokum ætla ég að kveðja góðan félaga með þessum orðum: far þú í friði og guðs blessun þér fylgi.

Eftirlifandi eiginkonu og ættingjum votta ég innilegustu samúð mína.

Jakob.