DÆMI eru um að námsmenn sem komnir voru til útlanda og hugðust stunda nám í vetur hafi hætt við námið vegna gengisfalls íslensku krónunnar, segir Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

DÆMI eru um að námsmenn sem komnir voru til útlanda og hugðust stunda nám í vetur hafi hætt við námið vegna gengisfalls íslensku krónunnar, segir Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hann segir um nokkur tilfelli að ræða og þau eigi við um námsmenn sem hugðust stunda nám í Bretlandi í vetur, en þar eru skólagjöld há.

Steingrímur segir að áhrif stöðunnar á Íslandi á LÍN komi betur í ljós í kringum áramótin, þegar þorri námsmanna skilar námsárangri og fær lán sín greidd. „Meginþungi útborgana er annars vegar í janúar og hins vegar í maí eða júní. Það verður því auðvitað gengið á þeim tíma sem mun hafa afgerandi áhrif.“ Hvað varði áhrif efnahagsmálanna á fjárhag sjóðsins og skuldsetningu lánþega verði tíminn að leiða í ljós hvað gerist. Gert hafi verið ráð fyrir ákveðinni gengisvísitölu í fjárhagsáætlunum sjóðsins, en þar eru sömu forsendur og í fjárlagafrumvarpinu. „Þá voru menn að miða við gengið í september, en þetta verður að endurskoða í ljósi stöðunnar sem verður þegar fjárlagafrumvarpið verður afgreitt.“ elva@mbl.is