Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands.
Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands. — Morgunblaðið/RAX
,,ÞAÐ ríkir mikil óvissa hjá knattspyrnufélögum landsins eins og öllum íþróttafélögum,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, við Morgunblaðið spurður um stöðu knattspyrnuliða landsins í ljósi þrenginga í...

,,ÞAÐ ríkir mikil óvissa hjá knattspyrnufélögum landsins eins og öllum íþróttafélögum,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, við Morgunblaðið spurður um stöðu knattspyrnuliða landsins í ljósi þrenginga í peningamálum þjóðarinnar.

,,Það segir sig sjálft að forsendur hafa breyst og þar á ég við skuldbindingar félaga við leikmenn, samninga við erlenda leikmenn og samninga félaga við styrktaraðila,“ sagði Þórir.

Þórir segist vita af því og það liggi í augum uppi að þetta ástand sem nú ríki komi illa niður á félögunum.

,,Ég get lítið sagt um það á þessari stundu og veit það í rauninni ekki hvort einhver félög eru illa stödd. Þetta ástand hefur mikil áhrif á rekstur knattspyrnuliða eins og í öllum öðrum íþróttagreinum en ég held að það sé fyrst og fremst mikil óvissa sem menn eru að reyna að glíma við. Menn vita ekki hver þróunin verður næstu vikur og mánuði. Það liggur í augum uppi að félögin verða undir þessum kringumstæðum að fara varlega í sínum rekstri og það munum við hjá KSÍ gera líka. Við munum fara rækilega yfir okkar mál.“

KSÍ stendur traustum fótum

Landsbankinn hefur verið aðalstyrktaraðili efstu deildar karla og kvenna undanfarin ár og spurður út í samninga KSÍ við Landsbankann sagði Þórir: ,,Þessi mál hafa ekkert verið skoðuð og ég get því lítið tjáð mig um þetta. Það er óvissa út um allt og líka hvað þessi mál varðar en það er brýnt að eyða óvissunni sem fyrst á hvorn veginn sem hún fer.“

Þórir segir að fjárhagsstaða KSÍ sé nokkuð sterk. ,,KSÍ stendur býsna traustum fótum en eins og ég hef áður sagt ríkir mikil óvissa. Við erum að fara í áætlunargerð fyrir næsta ár en við verðum að bíða og sjá hvað næstu vikur og mánuðir bera í skauti sér. Vonandi fer að birta til og þá verður betra fyrir félögin að meta sína stöðu. gummih@mbl.is