Eftir einn svartasta mánudag í sögu íslensks nútímasamfélags kom nýr dagur, betri en margir höfðu óttast, þótt óvissan sé enn algjör. Því í stað þess að almenningur kæmi skelfingu lostinn að luktum dyrum gjaldþrota banka, var opið.

Eftir einn svartasta mánudag í sögu íslensks nútímasamfélags kom nýr dagur, betri en margir höfðu óttast, þótt óvissan sé enn algjör. Því í stað þess að almenningur kæmi skelfingu lostinn að luktum dyrum gjaldþrota banka, var opið. Ríkið hafði gripið inn í. Þótt fjármálakerfið sé á hvolfi er komið af stað þjóðarátak undir forystu ríkisstjórnarinnar.

Sú forysta lofar góðu, þótt seint komi. Geir Haarde forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra gefa þjóðinni nú þær upplýsingar sem þeir virðast geta á hverjum tíma. Traust á stjórnvöldum vex. Traust á íslenskum viðskiptajöfrum vex ekki. Þeir fá þó plús fyrir að vera samvinnuþýðir þegar ríkið yfirtekur reksturinn sem þeir keyrðu fram af hengifluginu.

Sjálfstraust almennings vex líka. Fólk sér að spurningar og efasemdir um hið óskiljanlega ríkidæmi örfárra manna, sem spiluðu villt með þjóðarauðinn, voru réttmætar. Þjóðin sá það sem bankastjórarnir og fjárfestarnir afneituðu, meðan ríkisstjórnin beið. Aldrei framar geta menn leyft sér að líta undan og þegja þegar voðinn er vís.

Erfitt er að skilja stærðirnar. 700 milljarða króna rússneskt lán, ríkisábyrgðir sem ekki sér fyrir endann á, óljóst verðgildi krónu. Auðvitað er þungbært að þurfa að setja sig inn í ástæður bankahruns, þótt það komi okkur öllum við. Og átakadögum er líka að sjálfsögðu betur varið til annars en hengja sökudólga og berjast við fortíðardrauga.

Enda þolir það einhverja bið. Draugarnir eru máttlitlir í bili. Þeir hafa hins vegar alls ekki verið kveðnir niður. Hrygluhljóð uppvakninganna um stórframkvæmdir og stóriðju án umhverfismats heyrast nú þegar. Gamla tillagan um að skrifa allt á framtíðarreikning barnanna og lifa hátt í núinu. Án ábyrgðar. Eins og ekki sé komið nóg af því!

Mætir stjórnmálamenn vara við því að horft sé í baksýnisspegilinn og meina eflaust vel. Landlæknir og biskup vilja að fólk hlúi að fjölskyldunni og verji börn og gamalmenni gegn kreppufréttum. Embættis- og stjórnmálamenn hljóta að vita að alltaf á að hlúa að gömlu fólki og börnum. En ekki villa um fyrir þeim eða fela staðreyndir. Nú þarf að viðurkenna ástæður kollsteypunnar, reyna að skilja þær og hafa áhrif á framtíðina. Sjálfstraustið segir fólki að hætta strax að klappa upp vitleysu til að fá að vera með í liðinu. Þjónslund er ekki til góðs og það þurfa börnin að læra. Aðhald er verðmætara en aðdáun á ímynduðum hetjum. Hvort heldur sem Rússalánið kemur, önnur bjargráð eða við verðum óstudd og ein.