[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Eymdin, sú leiðindaskepna, sækir sér jafnan félagsskap þangað sem hann er að fá og nú er svo komið að íþróttafélög þessa lands eru flest hver á heljarþröm sökum þess að öll eru þau styrkt af sömu fáu aðilunum; þeim sömu og tekið hafa kollsteypu undanfarna daga og vikur í fjármálageiranum.

24 stundir tóku stöðuna meðal handknattleiksfélaganna í N1 deild karla og því miður virðist staða þeirra flestra afleit og í besta falli í járnum.

„Neyðaraðgerðir“

Á meðfylgjandi töflu sést hvaða styrktaraðilar eru að baki hverju félagi í N1 deildinni. Höfðu nokkrir viðmælenda 24 stunda á orði að jafnvel styrktaraðili deildarinnar, N1, væri hugsanlega að bakka með stuðning sinn en Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, kannaðist ekki við slíkt þegar leitað var viðbragða hans.

Vandinn ekki nýr

Enginn þeirra sem svara var leitað hjá vildi tjá sig að svo stöddu um hugsanlega uppsögn samninga leikmanna en allir töldu þeir það afar líklegt. Kristinn R. Jónsson hjá Fram sagði framundan allsherjar endurskipulagningu á starfinu öllu og ekkert heilagt í því sambandi.

„Okkar helsti bakhjarl er Stoðir sem nú eru í greiðslustöðvun og staðan er slæm hjá okkur. Almennt talað sé ég ekki annað fært í stöðunni og þá er ég að tala um öll félögin í deildinni en að segja verði upp öllum samningum erlendra leikmanna og jafnvel innlendra leikmanna líka. Óhjákvæmilega fylgir annar fórnarkostnaður slíkum aðgerðum en hjá því verður einfaldlega ekki komist.“

Ekki staðið við samninga

Verst er kannski að margir styrktaraðilar sem skreytt hafa búninga liðanna og hverra nöfn eru áberandi á heimavöllum félaganna hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar og er þar samkvæmt heimildum 24 stunda um öll fyrirtæki að ræða, bæði stór og lítil. Alexander Arnarsson, formaður stjórnar handknattleiksdeildar HK, segir að það sé raunar ekki alveg nýtt vandamál.

„Tilhneigingin hefur verið sú að sum fyrirtæki hafa ekki staðið við sitt og það hefur átt sér stað meira eða minna allt þetta ár. Það er því ekki bara yfirstandandi kreppa sem hefur þar áhrif.“

Stjarnan án stuðnings

Það verður vonandi aldrei að Stjarnan verði án stuðnings en fjárhagslegs stuðnings nýtur handknattleiksdeild liðsins ekki og hefur ekki notið í vetur. Aðalstyrktaraðili þeirra í fyrravetur, Kaupþing, sagði upp samningnum við liðið í sumar og síðan hafa menn þar á bæ róið öllum árum að því að finna nýjan bakhjarl en án árangurs hingað til. Þór Jónsson, formaður handknattleiksdeildar, var þó ekki úrkula vonar um að slíkur aðili fyndist á næstu dögum.

„Alls ekki. Það stendur yfir mikil leit að fyrirtæki til að leggjast á þessar árar með okkur og það kemur í ljós á næstu dögum hvort það gengur eftir. Ég er hæfilega bjartsýnn þrátt fyrir allt en það er hart í ári og auðvitað verður að grípa til aðgerða ef við fáum ekki stuðning fljótlega.“

Þrjú félög á góðu róli

Þrjú af þeim átta félögum sem í N1 deildinni eru virðast vera bærilega í stakk búin fyrir krepputíma sem enginn neitar lengur að komnir séu. Forráðamenn Víkings, FH og Akureyrar bera sig vel. Sammála eru þeir um að hart sé í ári og langur þorri sé framundan en einhverjir seðlar séu til til reksturs og í dæmum FH og Víkings er ekki um erlenda leikmenn að ræða. Í liði Akureyrar eru tveir slíkir en báðir verða að sætta sig við launaskerðingu ef þeir ætla sér að vera þar áfram. Að öðru leyti halda Akureyringarnir í horfinu og vel það sem verða að teljast jákvæðar fréttir.

Niðurgangur á uppgangstíma

Sorglegast af öllu er að viðmælendur þeir sem rætt var við eru flestir sammála um að bregða þurfi niðurskurðarhnífnum á loft nú þegar loks hillti undir að handknattleikur væri að verða vinsæll á nýjan leik. Áhorfendum á leiki hefur fjölgað talsvert það sem af er vetri og má þakka það meiri keppni fleiri félaga en verið hefur auk þess sem handboltinn svífur enn nokkuð á vængjum þeim er íslenska landsliðið flaug á hingað heim eftir Ólympíuleikana í Kína fyrir tæpum tveimur mánuðum.
Í hnotskurn
Valur Frjálsi fjárfestingarbankinn HK Byr, Bygg, ÍAV, IcelandExpress, Brimborg, JB. Fram Stoðir Haukar Byr, N1, Rio Tinto Alcan, Nettó, Vífilfell, Sjóvá, Actavis. FH Byr Akureyri Byr, Saga Capital, Bónus, KEA Víkingur Flugfélag Íslands Stjarnan Enginn styrktaraðili