Viðbrögð Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri kynnti aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar. Brugðist verður við ástandinu í efnahagsmálunum.
Viðbrögð Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri kynnti aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar. Brugðist verður við ástandinu í efnahagsmálunum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is BORGARSTJÓRN Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær aðgerðaáætlun borgarinnar sem lögð var fram til að bregðast við því ástandi sem upp er komið í efnahags-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

BORGARSTJÓRN Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær aðgerðaáætlun borgarinnar sem lögð var fram til að bregðast við því ástandi sem upp er komið í efnahags-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar. Áætlunin var unnin af starfshópi meiri- og minnihlutans undir stjórn Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokks.

„Reykjavíkurborg fer ekki, frekar en önnur sveitarfélög, varhluta af þeim umskiptum sem nú hafa orðið á efnahagslífi þjóðarinnar,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri þegar áætlunin var kynnt og vísaði þar til stöðunnar eins og hún birtist í sex mánaða uppgjöri borgarinnar.

„Útsvarstekjur voru undir áætlun, byggingaréttarsala nam aðeins 7% af áætlun og fjármagnskostnaður var langt umfram áætlun. Hið jákvæða er þó að rekstur fagsviða borgarinnar var innan fjárheimilda þrátt fyrir meiri verðbólgu en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sex mánaða uppgjörið sýnir þannig að borgin okkar er vel rekin og býr yfir miklum fjárhagslegum styrk. Eiginfjárhlutfallið er hátt, skuldsetning er lítil og lausafjárstaðan góð,“ sagði Hanna Birna og tók fram að þetta væru mikilvægir þættir við þær aðstæður sem nú blöstu við.

Þjónustan verður fyrir hendi

„Það skiptir öllu máli fyrir borgaryfirvöld að geta sannfært borgarbúa um að sú þjónusta sem þeir vænta af sínu nærsamfélagi sé fyrir hendi og verði fyrir hendi,“ sagði Hanna Birna og tók fram að borgin vildi með aðgerðaáætluninni senda skýr skilaboð til íbúa þess efnis að borgin hygðist standa vörð um hag heimilanna í borginni. „Reykjavíkurborg tekur því nú á sig skellinn vegna verðbólgu og verðlagshækkana með það eitt að markmiði að hlífa borgarbúum við slíku nú.“

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði mikilvægt að borgarstjórnin sendi skýr skilaboð um það hvernig stærsta sveitarfélag landsins hygðist standa að verki við hinar erfiðu aðstæður sem nú blöstu við í íslensku efnahagslífi.

„Þess vegna höfum við í minnihlutanum komið að þessu verkefni af heilum hug,“ sagði Dagur og tók fram að menn yrðu að standa saman ef niðurstaðan ætti að verða góð. „Framlag minnihlutans til þessa verkefnis hefur ekki síst verið það að leggja þunga áherslu á þá nýju stöðu sem ekki aðeins blasir við Reykjavíkurborg heldur heimilunum og fólkinu í borginni,“ sagði Dagur. Að mati Dags eru mikilvægustu skilaboðin sem borgarstjórn sendir frá sér með samþykkt aðgerðaáætlunarinnar þau að borgin ætli að mæta borgarbúum og reyna að styðja þá af fremsta megni í næstu skrefum við hinar óvissu aðstæður.

„Þetta eru undarlegir dagar sem nú líða. Svo virðist sem spilaborgin hafi hrunið og nú þurfi að bretta upp ermar. Nú þurfi jafnvel að leggja nýjan grunn og spyrja nýrra spurninga,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og tók fram að einstaklingshyggjan og græðgin hefðu beðið skipbrot. „Nú er bæði tilefni og tækifæri til að stokka upp og gefa upp á nýtt. Félagsleg sjónarmið, samhjálp og ábyrgð á náunganum verða að fá meira rými,“ sagði Svandís og benti á að í aðgerðaáætluninni fælust skýr félagsleg sjónarmið. Þannig sendi áætlunin skýr skilaboð til Reykvíkinga þess efnis að borgin stæði með sínu fólki. Benti Svandís í því sambandi á þá ætlun borgarinnar að efla almennan og félagslegan leigumarkað.

Í hnotskurn
» Í aðgerðaáætlun borgarinnar sem samþykkt var samhljóða í borgarstjórn í gær er kveðið á um það að þrengri fjárhagsstöðu borgarinnar verði að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir þjónustu eða skerðingu á þjónustu.
» Fjárheimildir sviða verða að jafnaði ekki auknar á árinu 2008 þrátt fyrir vaxandi verðbólgu, en útgjöld endurskoðuð með það að markmiði að ná fram sparnaði og samhæfingu í stjórnkerfinu. Spara á 15% í innkaupum borgarinnar með aðhaldsaðgerðum.
» Breyta á reglum um greiðslukjör lóða til að bjóða íbúum hagkvæmari greiðslukjör vegna lóðakaupa í Reykjavíkurborg.
» Engin áform eru um uppsagnir starfsfólks, en dregið verður úr nýráðningum.
» Leitast á við að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Forgangsröðun framkvæmda verði endurskoðuð en framkvæmdum eða verkefnum, sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað, verði frestað eða dregið úr kostnaði vegna þeirra.
» Gera á áætlun um sölu eigna sem nemur að lágmarki einum milljarði króna.
» Efna á til samráðs við ríki og sveitarfélög um leiðir til að efla almennan og félagslegan leigumarkað.
» Ráðgjöf og velferðarþjónustu sem veitt er í þjónustumiðstöðvum borgarinnar á að efla.