Icesave Viðskiptavinir Icesave í Bretlandi eru um 200.000 talsins og innistæður um 4,8 milljarðar punda.
Icesave Viðskiptavinir Icesave í Bretlandi eru um 200.000 talsins og innistæður um 4,8 milljarðar punda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is TRYGGINGARSJÓÐUR innistæðueigenda gæti þurft að ábyrgjast um það bil 560 milljarða íslenskra króna vegna Icesave reiknings Landsbankans.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

TRYGGINGARSJÓÐUR innistæðueigenda gæti þurft að ábyrgjast um það bil 560 milljarða íslenskra króna vegna Icesave reiknings Landsbankans. Eignir sjóðsins samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum eru 13 milljarðar auk 6 milljarða króna í formi ábyrgða.

Gera ráð fyrir tryggingum

Liam Parker, fjölmiðlafulltrúi hjá breska fjármálaráðuneytinu [the Treasury], sagði í samtali við Morgunblaðið að gengið væri út frá því að íslenski tryggingarsjóðurinn myndi tryggja innistæður á Icesave-reikningum fyrir allt að 20.000 evrur, sem er um 16.000 pund, og breski innistæðusjóðurinn myndi tryggja afganginn, allt að 50.000 pund fyrir hvern innistæðueigenda. Fulltrúi ráðuneytisins sagðist aðspurður ekki geta svarað hvað myndi gerast ef íslenski sjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hann sagði að bresk stjórnvöld gerðu ráð fyrir því að Íslendingar stæðu við sitt.

200.000 viðskiptavinir

Í skriflegu svari til blaðamanns vísaði Jónas Þórðarson, framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðsins, til laga um sjóðinn en þar segir: „Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.“

Annar talsmaður fjármálaráðuneytisins sagði að bresk stjórnvöld hefðu átt viðræður við íslensk stjórnvöld til að tryggja breskum innistæðueigendum það fjármagn sem þeir ættu rétt á. Viðskiptavinir Icesave í Bretlandi eru um 200.000 talsins og innistæður þeirra um 4,8 milljarðar punda, sem samsvarar 840 milljörðum íslenskra króna, miðað við gengi Seðlabanka Íslands.

Hinn íslenski Tryggingarsjóður innistæðueigenda tryggir innistæður fyrir allt að 20.000 evrur, sem eru um 16.000 pund, sem þýðir að sjóðurinn gæti í versta falli þurft að greiða allt að 560 milljarða íslenskra króna til breskra innistæðueigenda.

Vísa á stjórnvöld

Í samtali við mbl.is í gær vísaði Halldór J. Kristjánsson á samstarf íslensku og bresku tryggingasjóðanna en sagði að stjórnvöld yrðu að öðru leyti að svara fyrir þetta. Landsbankinn ætti miklar eignir á móti þessum skuldbindingum og eins væru ábyrgðir vegna slíkra sjóða álitamál um alla Evrópu um þessar mundir.

„Við erum að vinna að því að gera allt sem við getum til þess að fá bætur til breskra innistæðueigenda eins fljótt og við getum,“ sagði talsmaður tryggingasjóðs innistæðueigenda í Bretlandi við vefútgáfu BBC í gær.

Margir Bretar áhyggjufullir

Á blaðamannafundi með erlendum blaðamönnum í gær sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra að ef þörf væri á þá myndi íslenska ríkið styðja Tryggingarsjóð innistæðueigenda í að afla nauðsynlegs fjármagns svo sjóðurinn gæti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar í kjölfar gjaldþrots eða greiðslustöðvunar íslensks banka. Á vef Financial Times [FT] var sérstakur spurt og svarað dálkur fyrir áhyggjufulla sparifjáreigendur. Þar kom fram að Bretar gerðu ráð fyrir að Tryggingarsjóður innistæðueigenda myndi leita til Seðlabanka Íslands til að fá frekara fjármagn, en hvort sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar væri algjörlega óljóst.

Í hnotskurn
» Jónas Þórðarson, framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðs innistæðueigenda, var gríðarlega upptekinn í gær og var með rúmlega 150 ósvöruð skilaboð síðdegis í gær, samkvæmt ritaranum hans.
» Breska fjármálaeftirlitið réð í gær endurskoðendafyrirtækið Ernst&Young sem neyðarskilanefnd vegna starfsemi Landsbankans þar í landi.
» Á mörgum breskum miðlum voru fréttir um áhyggjur sparifjáreigenda vegna vanda Landsbankans.

Með reikninga í Bretlandi og í Hollandi

„Ég vil leggja sérstaka áherslu á að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að beita þessum lögum að því er Landsbankann varðar var gerð í góðu samstarfi við bankann og að hans frumkvæði,“ sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, um samstarf stjórnenda bankans við stjórnvöld í gær.

„Það var samdóma mat stjórnar og stjórnenda Landsbankans að nýta sér þau úrræði sem lögin hafa að geyma við þessar aðstæður. Landsbankinn hefur átt í góðu samstarfi við stjórnvöld um að leysa þau mál sem upp hafa komið sem vissulega eru mörg þegar grípa til þarf til úrræða af þessu tagi svo hratt.“

Inntur eftir því hversu margir eru skráðir með Icesave-reikninga erlendis vildi Halldór ekki gefa upp nákvæmar tölur.

„Við höfum aldrei gefið upp skiptingu á milli markaðssvæða um það hversu margir hafa Icesave-sparireikninga. Við höfum verið með Icesave í Bretlandi og í Hollandi og höfum ekki gefið það upp nákvæmlega hversu margir eru með reikninga hjá okkur í þessum löndum,“ segir Halldór, um fjölda reikningshafa í Icesave.

„Við höfum ekki boðið upp á þennan reikning í öðrum löndum. Þetta er nýrra hjá okkur í Hollandi en í Bretlandi. Í Hollandi höfum við tiltölulega stóran hóp viðskiptavina, þótt upphæðirnar séu umtalsvert lægri en í Bretlandi.“

Aðspurður um tryggingar á sparifjárinnistæðum Icesave-reikningshafa vísar Halldór til tryggingasjóðanna.

„Við höfum kosið að láta tryggingasjóðina ræða það. Því það er vafalaust til umræðu hjá tryggingasjóði hér á landi og í Bretlandi. Það gildir um þetta ákveðið samstarf sem ég tel að sé betra að láta rétta aðila tjá sig um, ef á það reynir.“ baldura@mbl.is