Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur sigrunerna@24stundir.is Til að kaupa og selja fiskibát er ekki lengur nauðsynlegt að hafa samband við bátamiðlun heldur er hægt að finna bát á netinu. Á föstudaginn síðasta var opnuð ný vefsíða, Findvessel.

Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@24stundir.is

Til að kaupa og selja fiskibát er ekki lengur nauðsynlegt að hafa samband við bátamiðlun heldur er hægt að finna bát á netinu. Á föstudaginn síðasta var opnuð ný vefsíða, Findvessel.com, sem hefur það að markmiði að menn geti verslað með báta sín á milli án þess að skipasala komi að málinu.

Alþjóðlegur vefur

,,Markmið síðunnar er að ná til fleiri viðskiptavina og er vefurinn nú starfræktur á þremur tungumálum. Markmiðið er svo að keyra hann fyrir fleiri lönd,“ segir Andrés Kolbeinsson hjá Skipa- og húsanausti sem stendur að vefnum Findvessel.com ásamt North Shipping AS í Noregi. Vefnum er ætlað að verða leiðandi markaðssvæði í Evrópu fyrir kaup og sölu á fiskibátum, vinnubátum og stærri skemmtibátum. Er hann nú á íslensku, norsku og ensku en síðar er gert ráð fyrir að hann verði einnig á hollensku, spænsku, færeysku, grænlensku, frönsku og portúgölsku.

Markaðstorg fyrir báta

Andrés segir að vefnum sé ætlað að ná bæði til einstaklinga sem vilja kaupa og selja en ekki síður til skipa- og bátasala sem og útgerða sem geta auglýst þá báta sem þeir hafa á sölu. Á síðunni eru auglýsingar um báta og upplýsingar um hvernig má hafa samband við eigendur þeirra. Kaupendur ráða svo hvort þeir hafa beint samband við eiganda og sjá sjálfir um kaupin eða hvort bátasala hefur milligöngu. Vefurinn er eins konar markaðstorg fyrir Norður-Atlantshafssvæðið.

Sá fyrsti sinnar tegundar

Vefurinn hefur verið sex mánuði í vinnslu og er gerður að einhverju leyti með erlenda fyrirmynd í huga. Þeir vefir sem til eru hafa þó eingöngu verið miðaðir við það land þar sem þeir eru staðsettir. ,,Þetta er því fyrsti vefurinn af þessu tagi þar sem hægt er að kaupa báta í öðru landi,“ segir Andrés. Nú er að finna á síðunni báta frá Húsanausti og frá norska samstarfsaðilanum. Sagðist Andrés búast fastlega við því að bátunum færi svo fjölgandi, hægt og rólega.

Sjómenn áhugasamir

Vefurinn var kynntur á íslensku sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í síðustu viku og segir Andrés að hann hafi orðið var við mikinn áhuga. ,,Sjómenn hafa enda alltaf gaman af því að skoða báta.“ Andrés segist gera ráð fyrir því að einbeita sér að strandsvæðunum í fyrstu og frekar að minni bátum en þeim stærri. ,,Þeir hafa ekki fengið eins mikla athygli frá bátasölum og erfiðara hefur verið að selja þá milli svæða en þá stóru,“ segir Andrés. Ekki verður lagt út í mikla auglýsingaherferð, að minnsta kosti ekki í byrjun, en sölurnar tvær sem standa að vefnum hafa látið sína viðskiptavini vita af þessum viðbótarkosti. ,,Við munum svo að öllum líkindum auglýsa vefinn í íslenskum, norskum og enskum sjávarútvegsblöðum.“

Auglýsingar bera kostnað

Kaupendur báta bera engan kostnað af því að kaupa í gegnum vefinn heldur borgar seljandi fyrir að leggja inn auglýsingu. ,,Sé hins vegar óskað eftir aðstoð skipasölu vegna sölunnar reiknast svo ákveðin þóknun vegna þess,“ segir Andrés.

Þekkir þú til?

Í hnotskurn
www.findvessel.com er bátasala á netinu. Vefurinn er samstarf íslenskrar og norskrar bátasölu og er á þremur tungumálum: íslensku, norsku og ensku. Ætlunin er að þýða hann á fleiri tungumál. Hægt er að kaupa beint af seljanda eða gegnum bátasölu.