Eftir Herdísi Sigurgrímsdóttur herdis@24stundir.is Gjaldeyrisvandi íslenska ríkisins er líklega stærri en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti bjargað málum með láni eða annarri neyðaraðstoð, væri til hans leitað.

Eftir Herdísi Sigurgrímsdóttur

herdis@24stundir.is

Gjaldeyrisvandi íslenska ríkisins er líklega stærri en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti bjargað málum með láni eða annarri neyðaraðstoð, væri til hans leitað. Sjóðurinn þarf að vera viðbúinn því að fleiri aðildarríki sæki um aðstoð í sjóðinn og hugsanleg fyrirgreiðsla til Íslands hlyti að taka mið af því. „Það er óeðlilegt að gera svo mikið fyrir Ísland að þeir geti ekki hjálpað öðrum,“ segir Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Samkvæmt heimildum úr Seðlabankanum óskuðu stjórnvöld eftir ráðgjöf sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem heimsóttu Seðlabankann í byrjun vikunnar.

Aðrar heimildir herma að á liðnum mánuðum hafi endurtekið verið reifað að sækja um aðstoð til sjóðsins en ekki fékkst upp gefið hvort slíkt væri í athugun núna.

Hagfræðingar sem blaðamaður ræddi við áætluðu að auka þyrfti gjaldeyrisvaraforða Íslands um allt að 10–20 milljörðum evra til þess að rétta við þá stöðu sem upp er komin. Lán sem Seðlabankinn hefur fengið vilyrði fyrir frá rússneska ríkinu nemur 4 milljörðum en þá vantar enn talsvert upp á. Ólíklegt þykir að lán sem hægt væri að fá frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum dygði, þó það hjálpaði í rétta átt.

Þröng skilyrði fylgja aðstoð

Aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum myndi óhjákvæmilega fylgja róttækt inngrip í íslenskt efnahagslíf, með þröngum skilyrðum um efnahagsstjórn. Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir ábyggilegt að það hefði í för með sér skattahækkun og niðurskurð á ríkisútgjöldum, til að snöggauka þjóðhagslegan sparnað.

Hann og aðrir hagfræðingar eru þó sammála um það að handleiðsla sjóðsins myndi líklega vera af hinu góða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búi yfir mikilli sérfræðiþekkingu á lausn fjármálakreppu og þar að auki séu sparnaðaraðgerðir óhjákvæmilegar, þó þær verði líkast til óvinsælar hjá landanum.

Í hnotskurn
Ísland er stofnfélagi og á því rétt á aðstoð úr sjóðnum en hann hefur aðallega sinnt þróunarríkjum. Á Vesturlöndum var Bretland síðast til að þiggja aðstoð, árið 1976.