Bergþór G. Böðvarsson
Bergþór G. Böðvarsson
Bergþór G. Böðvarsson skrifar um geðveiki: "Geðsjúkdómar eru algengir og hrjá um það bil fimmtung allra fjölskyldna..."

ÞEGAR íslensku strákarnir í landsliðinu í handbolta unnu Spánverja og þar með réttinn til að leika um gullið á Ólympíuleikunum í Peking, þá sögðu þeir flestir, brosandi og kampakátir: „geðveikt, þetta var alveg geðveikt“. Ólafur Stefánsson fyrirliði toppaði þetta svo, að mér finnst, þegar hann sagði Adolfi Inga, íþróttafréttamanni að giska á það hvernig honum liði.

Fyrir mig, sem greindist með geðsjúkdóm fyrir tæplega 20 árum og hef gengið í gegnum bæði eigin fordóma og annarra, var frábær upplifun að sjá strákana skælbrosandi, að rifna úr stolti og ánægju, talandi um geðveika tilfinningu. Það var líka ósjaldan sem ég sagði „bara eitthvað“ þegar fólk spurði mig hvernig mér liði.

Því annaðhvort var ég svo tilfinningalega dofinn eða að ég þorði ekki að segja hið sanna af ótta við að fólk færi að spyrja meira og kæmist þar af leiðandi kannski að því að ég væri geð-sjúkur. En svo miklir voru mínir eigin sem og annarra fordómar á þessum tíma að ég átti bágt með að viðurkenna mín andlegu veikindi, fyrir sjálfum mér og öðrum.

Þó ég sé ekki að segja að strákarnir í handboltalandsliðinu eigi við geðröskun að stríða né að það sé alltaf gaman að glíma við geðraskanir, þá vil ég meina að jákvæð umræða, skælbrosandi andlit, ánægja og stolt sé eitthvað sem dregur úr neikvæðri umfjöllun og fordómum í garð þeirra sem glíma við geðraskanir.

Á móti jákvæðu umræðunni hér fyrir ofan þá fannst mér mjög leiðinlegt að sjá skólastjóra eða kennara Austurbæjarskóla tala um geðveika hegðun þegar ungur maður á sportbíl reykspólaði í nokkra hringi á skólalóðinni svo nemendum stóð hætta af. Vissulega var þessi hegðun algert brjálæði en að tengja hana við geðveiki finnst mér ekki rétt. Ég ætla að leyfa mér að efast um að umræddur skólastjóri eða kennari hafi vísvitandi verið að tengja brjálaða hegðun við geðveiki, heldur hafi viðkomandi einfaldlega tekið svona til orða.

Eins og fyrr segir þá hef ég nokkurra ára reynslu af „geðveikri“ hegðun í heilbrigðu umhverfi sem og reynslu af að umgangast, vinna eða vera með fólki sem á við geðröskun að stríða. Því finnst mér vert að benda þeim á sem ekki vita að geð-veiki eða geð-sjúkdómur er í raun og veru eins og hver annar sjúkdómur, nema hvað sjúkdómurinn er huglægur og þar af leiðandi ekki sýnilegur og stundum illskiljanlegur og þá hvort sem er fyrir þann veika, aðstandendur hans, vini eða fagaðilann sem meðhöndlar viðkomandi. Geðsjúkdómar eru algengir og hrjá um það bil fimmtung allra fjölskyldna og að glíma við slíkan sjúkdóm er engum að kenna og hann er hvorki hægt að skera né taka í burtu með skurðarhníf né lyfjum. En það er hægt að nota lyf, hreyfingu, samtals- og hugræna atferlismeðferð og önnur úrræði til að öðlast bata eða lifa með sjúkdómnum, enda misjafnt hvernig fólk skilgreinir bata.

Eftir að ég náði bata af mínum veikindum og fór að lifa og horfa á lífið með „heilbrigðum“ augum þá hef ég oftar en ekki horft upp á neikvæða umfjöllun og kolranga „fordæmingu“ um málefni geð-fatlaðra. Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég dæma allt brjálæði sem eitthvað geðveikt, en sem betur fer þá veit ég betur.

Mín skoðun er sú að þeir sem eru innskrifaðir á geðdeild eru veikir einstaklingar, fólk sem líður illa og á við mikla andlega vanlíðan að stríða. En úti á götum borgarinnar er oft og tíðum algert brjálæði sem gerir það að verkum að æ fleiri og fleiri veikjast og vilja fá hjálp við sinni andlegu vanlíðan. Fólk leitar, úr brjálæðinu úti á götu, með eigin vanlíðan inn á geðdeild. Við þessu má bæta að svona þyrfti ekki að vera ef fleiri „betri“ úrræði væru til staðar í samfélaginu svo að „geðveikir“ einstaklingar gætu lifað með sína hegðun í samfélaginu.

En þar sem ég veit að góðar hugmyndir eru í vinnslu og að þjónustan hjá sveitarfélögunum er að aukast og batna, þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn á framhaldið. Bjartsýnn á að samfélagið fari í auknum mæli að aðlagast og ná meiri bata til að geta umgengist „geðveika“ einstaklinga í sínu umhverfi. Það segir jú í 1. geðorðinu: „Hugsaðu jákvætt, það er léttara,“ og því ætla ég að leyfa mér að vera vongóður og hugsa jákvætt, um betra viðmót í geðveiku samfélagi.

Gleði eða „alvarleg“ vanlíðan

Það getur verið gaman að vera geðveikur og þá sér í lagi þegar vel gengur, manni líður vel eða hefur náð einhverjum bata. En það getur líka verið mjög erfitt og stórhættuleg líðan fyrir þann sem er mikið veikur. Það hefur jú því miður endað svo alvarlega, að sá sem ekki til þekkir getur ómögulega hugsað sér, hvernig sú tilfinning getur verið, svo sterk og sársaukafull, að finna hvorki viljann, getuna né vonina til að lifa lengur.

Það er grafalvarlegt að nokkurri manneskju geti liðið svo illa, jafnvel í sínu nánasta umhverfi, að hún sjái ekki aðra leið en að vilja deyja og láti verða af því.

Heiðarleg, réttmæt og jákvæð umfjöllun er forsenda þess að óréttmætum fordómum í garð þeirra er glíma við geðsjúkdóma linni.

Hugsum og tölum jákvætt og hlúum að þeim sem okkur þykir vænt um, það er léttara.

Höfundur greindist með geðhvarfasýki árið 1989, en starfar nú sem fulltrúi notenda á geðsviði LSH.