[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Viggó I. Jónasson viggo@24stundir.is Það er eitthvað í eðli mannskepnunnar sem knýr hana áfram til að setjast upp í vélknúið farartæki og spæna upp sköpunarverk móður náttúru. Fjórhjólakappakstursleikurinn Pure sinnir vel þessum þörfum.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

Það er eitthvað í eðli mannskepnunnar sem knýr hana áfram til að setjast upp í vélknúið farartæki og spæna upp sköpunarverk móður náttúru. Fjórhjólakappakstursleikurinn Pure sinnir vel þessum þörfum.

Spilun Pure byggir á því að leikmenn láti sér ekki bara nægja að keyra hratt heldur þarf að nota hvert einasta stökk til að framkvæma hin ýmsu brögð. Ef vel tekst til við loftfimleikana fyllist sérstakur „bragðamælir“ sem er síðan hægt að nota til að komast ögn hraðar eða gera enn ýktari brögð í háloftunum. Á vissan hátt má líkja Pure við hina klassísku SSX-snjóbrettaleiki. Í þeim leikjum, líkt og Pure, tókst vel að blanda ofsafegnu kappi saman við nánast yfirnáttúrleg brögð. Þó svo að mikill munur sé snjóbrettum og fjórhjólum er ekki hægt að neita því að spilun leikjanna er mjög svipuð.

Pure fer ansi frjálslega með hin ýmsu lögmál hins efnislega heims. Þyngdarlögmálið virðist gegna veigalitlu hlutverki í leiknum en sum stökk leiksins eru hreint ótrúleg og gætu lofthræddir aðilar auðveldlega nötrað í sætum sínum við spilun leiksins.

Hvað grafíkina varðar lítur Pure vel út. Brautir leiksins eru flottar, en þó misjafnlega skemmtilegar, og fjórhjólin eru einstaklega falleg. Einn af sniðugri fídusum leiksins er að leikmenn geta unnið sér inn varahluti til að byggja sín eigin fjórhjól og geta því brunað um öræfi á bleika fjórhjólinu sem þá hefur alltaf dreymt um.

Pure er einfaldur og skemmtilegur kappakstursleikur sem skilar sínu vel. Þeir sem sakna SSX geta vel svalað þorsta sínum með Pure.