— 24stundir/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Trausta S. Kristjánsson traustis@24stundir.is „Gamla Ísland er að deyja og nýtt þjóðskipulag er í burðarliðnum [...]Auðurinn er allt í einu horfinn [...] Skuldirnar sitja eftir [...] Markaðir eru í frjálsu falli[.../...

Eftir Trausta S. Kristjánsson

traustis@24stundir.is

„Gamla Ísland er að deyja og nýtt þjóðskipulag er í burðarliðnum [...]Auðurinn er allt í einu horfinn [...] Skuldirnar sitja eftir [...] Markaðir eru í frjálsu falli[.../...]Samhliða þessu mun koma krafa um eftirfarandi: 1. Ríkisvaldið komi til bjargar bönkum, fyrirtækjum og fjármálamörkuðum sem standa illa. 2. Settar verða reglur sem koma í veg fyrir að slík áföll endurtaki sig.“

Þetta skrifaði stjörnuspekingurinn Gunnlaugur Guðmundsson í desember síðastliðnum í spá sinni fyrir árið 2008. Og viti menn, allt hefur þetta gengið eftir.

Byggt á náttúruvísindum

„Vísindamenn nota smásjá til að skoða lítil lífkerfi og álykta um mannskepnuna út frá niðurstöðum sínum. Við stjörnuspekingar hins vegar, notum stjörnukíki til að skoða stærri lífkerfi, og ályktum um mannskepnuna út frá stærra samhengi,“ segir Gunnlaugur, sem sér þó tækifæri í því umróti sem nú fer í hönd. „Þegar ein hringrás endar hefst önnur. Líkt og þegar haustar falla laufin en svo kemur nýtt vor,“ segir Gunnlaugur, sem hljómar ekkert ósvipað garðyrkjumanninum Chance í Peter Sellers-myndinni Being There. „Þetta ferli tekur um tvö ár. Þessi vetur og sá næsti verða erfiðir, það verður uppstokkun á þeim kerfum sem við höfum búið við, mikið aðhald og annað slíkt. En ég tel að sólin fari að hækka á lofti hjá okkur í kringum 2010 eða 2011 og því engin ástæða til að fara á límingunum. Við þurfum bara að standa saman.“

Áður reynst sannspár

„Árið 1993 skrifaði ég grein um að kreppan væri búin en árin þar á undan höfðu reynst mörgum erfið. Og um fimm mánuðum áður en netbólan sprakk hafði ég spáð fyrir um það einnig. En það er svo sem enginn að hlusta á stjörnuspekinga, ávallt skulu kallaðir til hagfræðingarnir,“ segir Gunnlaugur með vott af hæðnistón.

En hvað ber framtíðin í skauti sér? „Við þurfum að vinna úr málunum. Það verða mikil átök í kringum þá vinnu; ekki verða allir sammála. Þetta gæti leitt til stjórnarslita strax á næsta ári, en þá verður mikil spenna í samfélaginu.“