[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigtrygg Sigtryggsson sisi@mbl.is MEÐ nýjum neyðarlögum, sem samþykkt voru í fyrrakvöld, fær Fjármálaeftirlitið mikil völd í íslensku fjármálalífi.

Eftir Sigtrygg Sigtryggsson

sisi@mbl.is

MEÐ nýjum neyðarlögum, sem samþykkt voru í fyrrakvöld, fær Fjármálaeftirlitið mikil völd í íslensku fjármálalífi. Formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins er Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og bankastjóri, sem fyrir nokkru sneri heim eftir að hafa lokið starfsferli sínum sem aðalbankastjóri Norræna fjárfestingabankans í Helsinki. Það mun mikið mæða á Jóni á næstunni við endurskipulagningu og endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi.

Jón Sigurðsson á að baki afar fjölbreyttan starfsferil og honum hefur verið trúað fyrir mörgum ábyrgðarstöfum um ævina. Því má fullyrða, að fáum sé betur treystandi fyrir því ábyrgðarstarfi sem honum hefur nú verið falið.

Jón Sigurðsson er Ísfirðingur, fæddur þar í bæ 17. apríl 1941. Hann er því 67 ára að aldri. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 hóf hann nám í þjóðhagfræði og tölfræði við Stokkhólmsháskóla. Prófi lauk hann þaðan árið 1964 og hlaut meistaragráðu í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1967.

Þegar Jón sneri heim hóf hann að starfa við hagrannsóknir hjá Efnahagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins. Þá var hann hagrannsóknarstjóri í eitt ár.

Veitti ríkisstjórnum efnahagsráðgjöf

Árið 1974 var Jón ráðinn forstjóri Þjóðhagsstofnunar og gegndi hann því embætti til ársins 1986. Þjóðhagsstofnun er ekki lengur til, en hún vann að hagrannsóknum, sem oftar en ekki urðu

grunnurinn að efnahagsaðgerðum, sem ríkisstjórnir þess tíma gripu til. Um þriggja ára skeið, árin 1980 til 1983, var Jón fastafulltrúi Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Árið 1987 skipti Jón algerlega um vettvang og það vor var hann kjörinn alþingismaður fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjavík en árin 1991 til 1993 var hann þingmaður Reyknesinga. Öll árin sem Jón sat á þingi gegndi hann jafnframt ráðherraembætti. Hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra í eitt ár.

Sem iðnaðarráðherra beitti hann sér sérstaklega fyrir því að laða stóriðjufyrirtæki til landsins en sú vinna bar þó ekki árangur fyrr en nokkru eftir að hann lét af störfum sem ráðherra.

Árið 1993 skipti Jón enn um vetvang er hann var skipaður seðlabankastjóri og formaður bankastjórnar Seðlabankans.

Því embætti gegndi Jón til ársins 1994 en þá varð hann aðalbankastjóri NIB í Helsinki, eins og að framan greinir. Í störfum sínum sem bankastjóri öðlaðist Jón yfirgripsmikla þekkingu á fjármálum og bankastarfsemi.

Eftir að Jón lét af störfum bankastjóra og sneri heim til Íslands hefur hann verið kallaður til ýmissa trúnaðarstarfa, sérstaklega á vettvangi Samfylkingarinnar. Hann var m.a. einn helsti höfundur efnahagsstefnu flokksins, sem kynnt var fyrir síðustu kosningar.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra skipaði Jón Sigurðsson formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Varla hefur Jón grunað hvaða verkefni beið hans þegar hann féllst á að taka það ábyrgðarstarf að sér. Með Jóni í stjórninni sitja Sigríður Thorlacius lögfræðingur og Ingimundur Friðriksson, bankastjóri Seðlabankans.

Eiginkona Jóns er Laufey Þorbjarnardóttir bókavörður. Þau eiga fjögur börn, Þorbjörn, Sigurð Þór, Önnu Kristínu og Rebekku.

Ekki hrifinn af að beita stjórntækjum ríkisins svona harkalega

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þrónarsamvinnustofnunar Íslands, var æskufélagi Jóns á Ísafirði og sat með honum á Alþingi og í ríkisstjórnum.

„Jón er maður sem er afskaplega vandur að virðingu sinni,“ segir Sighvatur um Jón. „Hann er mjög vinnusamur, vill hafa allt í röð og reglu, helst 110%. Hann er skynsamur og vel greindur og hefur flesta þá kosti sem góðan mann þurfa að prýða. Enda hefur hann verið valinn til margra trúnaðarstarfa hér heima og erlendis,“ segir Sighvatur.

Hann segir það ótvírætt að Jón Sigurðsson sé réttur maður á réttum stað til að glíma við það mikla verkefni sem honum hefur verið falið. „En ég er viss um að hann tekur þetta mjög nærri sér vegna þess að hann er maður sem hefur ekki verið hrifinn af að þurfa að beita stjórntækjum ríkisins svona harkalega. Hann er eins langt frá því að vera ríkishyggjuforsjármaður og verið getur. En annað kemur ekki til greina núna því menn beittu ekki þeim úrræðum sem þeir höfðu til að koma í veg fyrir að bankakerfið yxi Íslandi yfir höfuð. Seðlabankinn hafði þessi tæki en beitti þeim ekki,“ segir Sighvatur.