Fögnuður Eiður Smári Guðjohnsen fagnar fyrsta markinu sem hann skoraði fyrir Barcelona á leiktíðinni.
Fögnuður Eiður Smári Guðjohnsen fagnar fyrsta markinu sem hann skoraði fyrir Barcelona á leiktíðinni. — Reuters
EIÐUR Smári Guðjohnsen segir að frammistaða sín með Barcelona í sigrinum á Atletico Madrid í spænsku 1. deildinni um síðustu helgi sé ein sú besta frá því hann kom til félagsins fyrir tveimur og hálfi ári.

EIÐUR Smári Guðjohnsen segir að frammistaða sín með Barcelona í sigrinum á Atletico Madrid í spænsku 1. deildinni um síðustu helgi sé ein sú besta frá því hann kom til félagsins fyrir tveimur og hálfi ári. Eiður lék stórt hlutverk með Börsungum, skoraði eitt mark í 6:1 sigri liðsins og hafa spænskir sparkspekingar lofað frammistöðu hans og segja meðal annars að Josep Guardiola hafi blásið nýju lífi í Eið með því að tefla honum fram í sinni stöðu og blaðið Diario Sport líkir Eiði við gulldrenginn Raúl.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,Það var meiriháttar gaman að taka þátt í þessum leik. Þetta var svona kennslumyndband í knattspyrnu sem við buðum upp á og ég var mjög ánægður með mitt framlag,“ sagði Eiður Smári í samtali við Morgunblaðið í gær. ,,Þetta er klárlega besti leikur liðsins frá því ég hóf að spila með því og það hefur komið fram mikil jákvæðni í minn garð og þá sérstaklega eftir þennan leik við Atletico Madrid,“ sagði Eiður og bætti því við að spænskir fjölmiðlar væru oft og tíðum ansi ýktir. ,,Þú ert bara skúrkur eða hetja. Það er engin millivegur.“

Eiður segist finna vel fyrir því trausti sem hann hafi fengið hjá Josep Guardiola, þjálfara liðsins.

,,Auðvitað hjálpar það manni ef maður finnur að þjálfarinn stendur við bakið á manni. Það er allt annað að vinna undir þeim kringumstæðum,“ sagði Eiður en margir eru þeirrar skoðunar að Eiður hafi ekki notið trausts hjá Frank Rijkaard, fyrrum þjálfara liðsins, og er undirritaður einn þeirra.

Næsti leikur Barcelona er ekki fyrr en um aðra helgi þegar það mætir Bilbao á útivelli en fram undan er landsleikjahlé.

,,Ég hefði ekkert haft á móti því að taka þetta frí síðar þar sem við höfum verið á mikilli siglingu en við tökum bara upp þráðinn eftir landsleikjatörnina. Mér sýnist allt stefna í mjög spennandi baráttu um titilinn. Lið Villareal lítur rosalega vel út og lið þeirra er afar vel spilandi lið sem erfitt er við að eiga. Valencia hefur líka komið öflugt til leiks og við og Real Madrid verðum í þessari baráttu sem verður örugglega jöfn og skemmtileg.

Verður á brattann að sækja á móti Hollendingum

Eiður Smári verður í eldlínunni í Rotterdam í Hollandi á laugardaginn þegar Íslendingar mæta Hollendingum í undankeppni EM og á miðvikudaginn eftir viku koma Makedónar í heimsókn á Laugardalsvöllinn.

,,Það er nokkuð ljóst að á brattann verður að sækja gegn Hollendingunum. Maður er ennþá svekktur eftir tapið á móti Skotum en við verðum bara að gera okkar allra besta til að ná hagstæðum úrslitum á móti Hollandi. Ég býst fastlega við því að leikurinn þróist á svipaðan hátt og í leiknum við Spánverja á Mallorca í vor þar sem verðum í varnarhlutverki en auðvitað verðum við að hafa trú á sjálfum okkur. Hollendingarnir eru með frábært lið, þeir eru léttleikandi og með frábæra leikmenn í öllum stöðum. Ef maður lítur raunsætt á hlutina þá verður þetta með erfiðari mótherjum sem hægt er að glíma við í dag,“ sagði Eiður Smári.

Í hnotskurn
» Eiður hefur komið við sögu í fjórum leikjum Barcelona af sex í deildinni og hefur skorað 2 mörk á þeim 200 mínútum sem hann hefur spilað.
» Eiður skoraði 2 deildarmörk á síðustu leiktíð í 23 leikjum, þar af byrjaði hann inná í 12 leikjum.