Óvissa Samningar við mörg íþróttafélög eru í uppnámi.
Óvissa Samningar við mörg íþróttafélög eru í uppnámi. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Einar Fal Ingólfsson og Gunnhildi Finnsdóttur „ÞETTA er áfall fyrir lítið safn eins og okkur, og kippir grundvellinum að ákveðnu leyti undan rekstrinum,“ sagði Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands í gær, þegar ljóst...

Eftir Einar Fal Ingólfsson og

Gunnhildi Finnsdóttur

„ÞETTA er áfall fyrir lítið safn eins og okkur, og kippir grundvellinum að ákveðnu leyti undan rekstrinum,“ sagði Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands í gær, þegar ljóst var að aðalstyrktaraðili safnsins hafði óskað eftir greiðslustöðvun.

Margar aðrar menningarstofnanir og íþróttafélög hafa á síðustu árum treyst í auknum mæli á stuðning fyrirtækja. „Aðalstyrktaraðili okkar var FL Group og þegar það hvarf af yfirborði jarðar þá tóku Stoðir við. Þær eru nú komnar í greiðsluþrot,“ segir Þröstur Ólafsson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Landsbankinn hefur einnig stutt starf hljómsveitarinnar og óvíst um að framhald verði á því.

Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri segir leikhúsið ekki vera upp á styrktaraðila komið. Hún segir að aðeins hafi verið samið um tiltekin einstök verkefni við slíka aðila og nefnir í því sambandi nýstofnaðan leikritunarsjóð sem Bjarni Ármannsson og Helga Sverrisdóttir lögðu fé til. Sagðist hún ekki eiga von á öðru en staðið yrði við gerða samninga. „En við erum í slæmri stöðu eins og aðrir í samfélaginu og erum að leita leiða til þess að draga saman seglin,“ segir Tinna.

„Staðan hjá okkur er mjög góð, við erum með mjög öfluga samstarfsaðila sem hafa af rausnarskap komið til liðs við leikhúsið og það hefur ekki orðið nein breyting varðandi eitt eða neitt,“ segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu.

Svipaða sögu segja forsvarsmenn íþróttafélaga sem Morgunblaðið ræddi við. Annaðhvort eru samningar við fyrirtæki í uppnámi eða þeir hafa verið skornir niður. Mörg félög hafa gripið til þess ráðs að segja upp erlendum leikmönnum og þjálfurum. | 28 og Íþróttir

Í hnotskurn
» Sinfóníuhljómsveitin missir 20 til 30 milljóna tekjur á ári ef nýir stuðningsaðilar fást ekki. Heildarvelta hennar er 700 milljónir og er hún að langstærstu leyti rekin af ríki og borg.