— 24stundir/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Auði Alfífu Ketilsdóttur fifa@24stundir.is „Ég var tiltölulega nýbúinn að kaupa mína fyrstu íbúð og var að borga af henni,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor í Háskóla Íslands. Hann var einn af Sigtúnshópnum fyrir aldarfjórðungi.

Eftir Auði Alfífu Ketilsdóttur

fifa@24stundir.is

„Ég var tiltölulega nýbúinn að kaupa mína fyrstu íbúð og var að borga af henni,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor í Háskóla Íslands. Hann var einn af Sigtúnshópnum fyrir aldarfjórðungi.

„Síðan urðu efnahagsþrengingar og reið yfir heilmikil kjaraskerðing,“ segir hann. Árið 1983 var vísitölutenging launa afnumin en ekki lánskjaravísitala. Á sama tíma geisaði óðaverðbólga og nam hún tugum hundraðshluta á nokkurra mánaða tímabili.

„Þá gerðist það sama og hefur komið fyrir marga nú. Maður borgaði og borgaði og hljóp eins hratt og maður gat og samt fannst manni maður fara aftur á bak. Það leit út eins og fólk myndi aldrei sjá í gegnum þetta. Þetta setti heilmikið andóf og kvíða í fólk,“ segir Stefán. Þetta var rótin að því að þrýst var á stjórnvöld, segir hann.

Sigtúnsfundurinn

Ögmundur Jónasson var í forsvari fyrir hópnum. Boðað var til fundar í Sigtúni og var þar fullt út úr dyrum. Þangað mættu ráðamenn úr ríkisstjórn og öllum flokkum. Ögmundur segir umræðuna hafa snert á strengi sem alls staðar voru strengdir til hins ýtrasta og þess vegna hafi myndast þverpólitísk samstaða um hópinn. „Kröfurnar sem hópurinn setti fram voru mjög almenns eðlis,“ segir hann. „Þær gengu út á það að fólk vildi fá með einhverjum hætti til baka það sem það taldi sig vera að ofgreiða inn í kerfið.“

Á þessum tíma voru húsnæðislán innan við 20% af verði meðalíbúðar og skammtímalán í mun ríkari mæli en nú er. Þá þurfti að greiða lánið upp á skemmri tíma en nú er.

„Það sem gerðist síðan um haustið var að þá var sett viðbótarfjármagn inn í lánveitingar til húsnæðiskaupa. Síðan var talað um að lengja í lánum fyrir þá sem voru með lán frá Íbúðalánasjóði en sá hængur var á að þessi viðbótarlán voru ekki á lægri vöxtum en hin og oft á hærri vöxtum. Þá var talað um að lengja í snörunni.

Stóra málið er að það kom stóraukið fjármagn inn í húsnæðiskerfið. Árangurinn lá í þessu,“ segir hann.

Vonandi tímabundinn vandi

Þó að vandinn á húsnæðismarkaði nú líkist því sem gerðist þá segir Stefán ríkisstjórnina nálgast málið á réttan hátt, sérstaklega ef erlendu lánin verða flutt yfir í Íbúðalánasjóð. „En svo þegar uppsveiflan kom lagaðist þetta þannig að ég held nú að fólk eigi að halda í vonina. Ef allt er eðlilegt þá á að líta á þetta sem tímabundið vandamál og vonandi verður sá tími ekki of langur.“
Í hnotskurn
Árið 1983 var afnumin vísitölutenging launa en vísitölutenging lána hélt áfram. Í óðaverðbólgu sem varð um sumarið hækkuðu lán miklu meira en sem nam verðmæti íbúðanna.