Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is GENGI á erlendum gjaldmiðlum þegar verslað var með greiðslukort í útlöndum var mun hærra í gær en skráð seðlagengi í bönkum hérlendis. Skýringarinnar er að leita í skorti á gjaldeyri og verðfalli krónunnar erlendis.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

GENGI á erlendum gjaldmiðlum þegar verslað var með greiðslukort í útlöndum var mun hærra í gær en skráð seðlagengi í bönkum hérlendis. Skýringarinnar er að leita í skorti á gjaldeyri og verðfalli krónunnar erlendis.

Borgun, sem er með MasterCard og fleiri alþjóðleg greiðslukort, breytti genginu síðdegis í gær eftir viðræður við MasterCard Worldwide. Þá var gengi fyrirtækisins á evrunni 225,8 krónur, en var fram eftir degi 237,5 krónur. Hjá VISA kostaði evran 226,4 krónur í gær. Á hádegi í gær var skráð sölugengi evru í seðlum hjá Glitni 150,5 krónur. Svipaða sögu er að segja af öðrum myntum.

Borgun sendi síðdegis í gær frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a.: „Eins og öllum er kunnugt voru afar óvenjulegar aðstæður á fjármálamörkuðum á Íslandi í gær. Vegna þessara óvenjulegu aðstæðna var gengi MasterCard á íslensku krónunni skráð óeðlilega lágt. Þar sem MasterCard Worldwide annast umreikning erlendra viðskipta í íslenskar krónur sáu margir korthafar afar óhagstæð viðskipti birtast á yfirlitum sínum í dag. Gengisumreikningur hefur verið með sama hætti í langan tíma og hefur gengið alla jafna verið þannig skráð að hagstæðara er að versla með korti en mynt.“

Deutsche Bank sér um uppgjör á erlendum viðskiptum fyrir Borgun, sem er með MasterCard og fleiri alþjóðleg greiðslukort og segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, að MasterCard-gengi gærdagsins endurspegli stöðu krónunnar og verðfall hennar gagnvart erlendri mynt.

Krónan gerð upp eins og aðrar myntir

Erlendar úttektir VISA-korthafa eru umreiknaðar beint úr kauplandsmyntinni yfir í íslenskar krónur, að sögn Bergsteins Samsted, framkvæmdastjóra kortalausna hjá Valitor, sem er með VISA-greiðslukort. „Íslenska krónan er umreiknuð og gerð upp eins og aðrar myntir. Þetta uppgjör fer fram hjá VISA International í miðstöð fyrirtækisins á vesturströnd Bandaríkjanna eftir að íslenskir bankar loka. VISA International fær tilboð frá öðrum bankastofnunum, þannig myndast verðið á gjaldeyri og við þurfum að borga það sem þeir rukka okkur um,“ segir Bergsteinn.

„Klukkan 10 á mánudagsmorgun varð til gengi þess dags hjá VISA. Það var hærra en markaðurinn hér heima sýndi á þeim tíma, en markaðir enduðu síðan á svipuðum stað og við byrjuðum á um morguninn. Við höfum notað sömu uppgjörsreglur í fimm ár og aldrei séð neitt í líkingu við það sem hefur gerst síðustu daga,“ sagði Bergsteinn. Hann bætti því við að fyrirtækið hefði byrjað gærdaginn á því verði sem fyrirtækið fékk á mánudagskvöld og það hafi því verið ákveðið áður en ákveðið var að festa gengi krónunnar.

Í hnotskurn
» Í yfirlýsingu frá Valitor segir m.a. að gengismunur sem um hefur verið rætt eigi skýringar í aðstæðum sem mynduðust á markaði.
» Vonast er til að það öldurót sem ríkir lægi og að fyrra jafnvægi náist á ný, segir í yfirlýsingunni sem birt er í heild á mbl.is