Meiri þorsk Frjálslyndi flokkurinn og Framsókn þrýsta nú mjög á um að þorskveiðiheimildir verði auknar.
Meiri þorsk Frjálslyndi flokkurinn og Framsókn þrýsta nú mjög á um að þorskveiðiheimildir verði auknar. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is ÞAÐ VÆRI mjög óskynsamlegt ef forsætisráðherra lýsti því yfir úr ræðustóli Alþingis að þorskveiðiheimildir verði auknar núna. Þetta sagði Geir H.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

ÞAÐ VÆRI mjög óskynsamlegt ef forsætisráðherra lýsti því yfir úr ræðustóli Alþingis að þorskveiðiheimildir verði auknar núna. Þetta sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í gær en Samúel Örn Erlingsson, sem nú situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn, spurði hvort ekki ætti að auka þorskkvótann verulega enda væri verðmætasköpun mjög mikilvæg á þessum tímum. „Í fyrra var tekin djörf ákvörðun um niðurskurð þorskkvótans. Sú ákvörðun var tekin í góðæri. Nú hriktir í stoðum og þá verða menn að ganga svo langt sem skynsemi leyfir,“ sagði Samúel.

Geir tók undir mikilvægi verðmætasköpunar til að bæta kjörin í landinu en sagði ekki hægt að hrapa að breytingum enda væri ákvörðunin byggð á vísindalegum grunni. „En sjávarútvegsráðherra er að sjálfsögðu með þetta til skoðunar og þessi mál öll stöðugt,“ sagði Geir og áréttaði að ef grundvöllur væri fyrir að auka kvótann kæmi það út úr athugunum „sjávarútvegsráðherra og hans manna“.

Ekki á dagskrá

Einar K. Guðfinnson, sjávarútvegsráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að auknar þorskveiðiheimildir væru einfaldlega ekki á dagskrá. Menn væru að fást við önnur mál núna.

Breytir ekki þorski

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, bendir á að stofnunin veiti sína ráðgjöf að vori fyrir fiskveiðiár sem hefst 1. september. Forsendur hafi ekki breyst síðan í vor. „Vitaskuld gerir maður sér grein fyrir alvarleika kreppunnar en mat okkar á ástandi þorskstofnsins hefur ekki breyst,“ segir Jóhann og bætir við að þótt talsvert sé af þorski á miðum núna hafi nýliðun verið í sögulegu lágmarki síðustu ár og við því þurft að bregðast.