Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

„ÞAÐ sem er ánægjulegt við þessa yfirlýsingu Davíðs er að hann skuli núna telja að lækka skuli vexti, Seðlabankinn hefur nú ekki verið á þeim buxunum lengi,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Í Kastljósi í gær sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að haga þurfi kjarasamningum þannig að það skapist ró og að Seðlabankinn geti farið að lækka vexti. „Það er orðið mikilvægt að við getum farið að gera það. Og þar er samvinna við aðila vinnumarkaðarins mikilvæg,“ sagði Davíð. Hann sagði því nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins næðu fljótt saman um festu í kjarasamningum um skamma hríð.

Andanum náð

„Ég tel að menn muni aðeins reyna að ná andanum fyrst eftir atburði síðustu helgar og svo kemur að því fyrr en síðar að við setjumst niður og ljúkum gerð kjarasamninga,“ segir Vilhjálmur. „Í síðustu tvö skipti sem við unnum að kjarasamningum fannst manni nú á Seðlabankanum að það væri tilefni til að hækka vexti í kjölfar þeirra samninga, svo það er ánægjulegt ef orðin er stefnubreyting þar á.“ Hann segir að samband hafi ekki verið haft við SA af hálfu Seðlabankans varðandi þessi mál „enda hefur Seðlabankinn alltaf undirstrikað að hann taki vaxtaákvarðanir alveg sjálfstætt.“

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir ljóst að lækkun vaxta sé mjög brýn en fleira sé aðkallandi en endurnýjun kjarasamninga. „Ég hef skilið það svo allavega síðasta sólarhringinn að það væri neyðarástand sem hefði kallað fram þessi neyðarlög og þá hlýtur allt að vera undir. Að mínu viti mega þá engar heilagar kýr vera í stöðunni og ég held það sé sitthvað fleira sem þarf að gera í þessu samfélagi en fara í endurskoðun samninga.“