Ásgeir Sverrisson fæddist í Hvammi í Norðurárdal 9. júní 1928. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Landakoti 27. september síðastliðinn.

Ásgeir var jarðsunginn frá Langholtskirkju 7. október sl.

Við kveðjum kæran vin Ásgeir Sverrisson sem lést úr illkynja sjúkdómi eftir skamma sjúkrahúsvist.

Kynni okkar af honum hófust árið 1989 þegar VÍS var stofnað með sameiningu Samvinnutrygginga og Brunabótafélags Íslands. Geiri hafði starfað hjá Samvinnutryggingum um árabil og tók því á móti okkur í Ármúlanum þegar við komum til starfa hjá nýju félagi.

Það má með sanni segja að Geiri með sitt jákvæða viðhorf og léttu lund hafi auðveldað okkur að takast á við þau verkefni sem fylgdu sameiningunni. Annríkið var oft mikið og þá var ómetanlegt að hafa hann í hópnum. Margs er að minnast frá þessum árum, einkum hans léttu lundar og glettni sem hafði góð áhrif á alla sem umgengust hann. Geiri þekkti marga og kunni margar skemmtilegar frásagnir af samferðamönnum sínum. Oft létti hann okkur lundina í dagsins önn með skemmtilegri sögu.

Geiri var mikill tónlistarmaður og væri fyrirtækið eða bókhaldsdeildin að gera sér glaðan dag var hann hrókur alls fagnaðar og oft fengum við að njóta tónlistargáfunnar sem hann bjó yfir.

Tryggð hans við okkur, fyrrverandi vinnufélaga, var einstök. Eftir að hann lét af störfum hjá félaginu heimsótti hann okkur reglulega. Hann sótti eldriborgarakaffið mánaðarlega og leit þá við hjá sínum gömlu vinnufélögum, ekki aðeins í bókhaldsdeildinni heldur fór hann um húsið og heilsaði upp á þá sem hann þekkti. Síðast kom hann rétt áður en hann lagðist inn á sjúkrahús. Hann var þó ekkert að kvarta heldur hafði glettnin yfirhöndina.

Létta lundin, æðruleysið og umhyggjan fyrir samferðamönnunum kom líklega best í ljós þegar við heimsóttum hann á Landakot síðla sumars. Þrátt fyrir að hann væri orðinn mikið veikur og ljóst væri hvert stefndi sló hann á létta strengi og spurði frétta af vinnufélögunum.

Ást hans og umhyggja fyrir Siggu var einstök og augljóst var að hún var honum allt. Síðustu ár hafa verið þeim hjónum erfið, en Sigga hefur átt við alvarleg veikindi að stríða. Geiri var mjög umhyggjusamur og var henni stoð og stytta í veikindum hennar.

Við sendum Siggu og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Vinnufélagar í bókhaldi VÍS,

Örn, Guðrún og Ingunn.