Á förum Þorsteinn Már Baldvinsson gengur af stjórnarfundi Glitnis í gærkvöldi. Hann segir útilokað að spá fyrir um það sem gerist næstu daga.
Á förum Þorsteinn Már Baldvinsson gengur af stjórnarfundi Glitnis í gærkvöldi. Hann segir útilokað að spá fyrir um það sem gerist næstu daga. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Tveir einkabankar nú undir stjórn Fjármálaeftirlitsins eftir að neyðarlög voru samþykkt á Alþingi í fyrrakvöld *Tryggja á eðlilega bankastarfsemi innanlands

Eftir Björgvin Guðmundsson

bjorgvin@mbl.is

„ÞAÐ er búið að víkja stjórn Glitnis frá,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, þegar hann kom af stjórnarfundi í gærkvöldi. Þá hafði Fjármálaeftirlitið tilkynnt að skilanefnd hefði verið skipuð og tæki yfir stjórn bankans á grundvelli neyðarlaga sem Alþingi samþykkti í fyrrakvöld. Stjórna þá skilanefndir skipaðar af Fjármálaeftirlitinu bæði Landsbanka Íslands og Glitni.

„Mér finnst að sjálfsögðu erfitt að sjá á eftir öllum þeim verðmætum sem hefur verið kastað á glæ síðasta sólarhring eða tvo,“ sagði Þorsteinn Már. Hann sagði að mikil átök hefðu átt sér stað í íslensku viðskiptalífi undanfarna daga. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins hefði komið fram að skilanefndin ætti að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi hér á landi en ekki hefði verið minnst á að gæta verðmæta erlendis.

Fjármálaeftirlitið sagði að yfirtakan á Landsbankanum í gærmorgun hefði verið nauðsynlegt fyrsta skref til að tryggja eðlilega bankastarfsemi innanlands og öryggi innistæðna á Íslandi. Ekki náðist í neinn hjá eftirlitinu í gærkvöldi.

„Ég óska þess að skilanefndin gæti að hag starfsfólksins,“ segir Þorsteinn og þakkar því góð kynni.

Nýr Glitnir |11

Erfitt að hughreysta

„STARFSMENN bankans hafa unnið að því hörðum höndum að leysa málin en þetta er því miður niðurstaðan. Ég vil undirstrika að starfsemi bankans á næstu vikum mun verða að mestu óbreytt og öll útibú verða opin,“ sagði í bréfi sem Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sendi starfsfólki í gærkvöldi þegar hann tilkynnti um niðurstöðu FME.

„Það er erfitt að gefa hughreystingar á þessari stundu en þetta er nýr veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við. Það er mikilvægt að við vinnum af heilum hug með þeim aðilum sem nú koma að stjórn bankans til að tryggja hag viðskiptaaðila og starfsmanna bankans til framtíðar,“ sagði Lárus sem samþykkti að gegna starfi forstjóra áfram.