[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það virðist allt vera orðið öfugsnúið á Íslandi í dag. Ekki einungis standa núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir þjóðnýtingu á hverjum bankanum á fætur öðrum heldur skríða þeir nú til Rússlands í leit að hjálp.

Það virðist allt vera orðið öfugsnúið á Íslandi í dag. Ekki einungis standa núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir þjóðnýtingu á hverjum bankanum á fætur öðrum heldur skríða þeir nú til Rússlands í leit að hjálp. En eins og fram kemur í blaðinu dag tilkynnti Geir H. Haarde forsætisráðherra að fulltrúar stjórnvalda og Seðlabankans væru á leiðinni til Rússlands að semja um 4 milljarða evra lán við þarlend stjórnvöld.

Rússagrýlan

Á tímum kalda stríðsins hræddu forystumenn Sjálfstæðisflokks landsmenn með sögum um Rússagrýluna – sögðu að Rússarnir væru að koma. Tilgangur þess var að sannfæra almenning um nauðsyn bandarísku herstöðvarinnar á Miðnesheiði, sem var eitt stærsta pólitíska deilumál íslensks samfélags á 20. öldinni eftir seinna stríð. Kalda stríðinu lauk svo í upphafi 10. áratugarins og herinn fór fyrir tveimur árum.

Rússarnir minna á sig

Eftir brottför hersins hafa vaknað áhyggjur af auknum hernaðarumsvifum Rússa, meðal annars í námunda við Ísland. Dæmi eru um að rússneskar sprengjuflugvélar hafi flogið inn í íslenska lofthelgi auk þess sem vart hefur orðið við rússneska kjarnorkukafbáta úti fyrir ströndum Noregs. Í byrjun ágúst brugðust Rússar svo harkalega við innrás Georgíumanna inn í aðskilnaðarhéraðið Suður-Ossetíu og ruddust með herafla langt inn í Georgíu.

Rússar ógn við öryggi

Þjóðarleiðtogar helstu bandalagsþjóða Íslands í Atlantshafsbandalaginu gagnrýndu viðbrögð Rússa harðlega. Geir var enginn eftirbátur þeirra á fundi í Valhöll fyrir tæpum mánuði þar sem hann gerði hernaðarátökin að umtalsefni. Þar sagði hann Rússa vera ógn við öryggi Íslendinga og Evrópu. Þá hefur ríkisstjórn Geirs verið meðal þeirra sem lýst hafa yfir stuðningi við sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo sem Rússar eru andvígir. Rússar hafa því ekki verið bestu vinir Íslendinga.

Eins og hver önnur viðskipti

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, helsti sérfræðingur ríkisstjórnarinnar í öryggis- og varnarmálum, segir að hann líti á þessa hugsanlegu lántöku hjá Rússum „sem hver önnur viðskipti, þótt tilkynning sé um þau gefin við einstæðar aðstæður hér á landi“. Hann bendir jafnframt á að þrátt fyrir að íslensk yfirvöld hafi tekið einarða afstöðu gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu hafi Íslendingar átt í miklum viðskiptum við þau.

Þrátt fyrir að Björn vilji ekki gera ekki mikið úr þessu þá hlýtur það að vera þungbært fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins að leita til Rússlands um neyðaraðstoð. En neyðin er augljós og nú virðast Rússarnir koma til þess að bjarga okkur eftir allt saman.