Traust Þeir eldri treysta á lífeyrinn.
Traust Þeir eldri treysta á lífeyrinn.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is LJÓST er að eignir lífeyrissjóðanna rýrna vegna ástandsins á fjármálamörkuðum og neyðarlaganna frá Alþingi.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

LJÓST er að eignir lífeyrissjóðanna rýrna vegna ástandsins á fjármálamörkuðum og neyðarlaganna frá Alþingi. Landssamtök lífeyrissjóða telja allt benda til þess að lífeyrir og lífeyrisréttindi sjóðsfélaga muni skerðast og það muni koma til framkvæmda á fyrri hluta næsta árs.

„Mér finnst það hræðilegt. Þetta eru laun sem við lögðum til hliðar og ætluðum að nota þegar við hættum að vinna. Það er verið að stela af okkur launum. Það hefur alltaf verið fullyrt að við héldum okkar lífeyri, hvað sem á gengi,“ segir Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, um væntanlega skerðingu lífeyrisréttinda.

Erfitt er að meta stöðu lífeyrissjóðanna nú og hvað lífeyrisréttindi skerðast mikið, þegar upp verður staðið, að sögn Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða. Staða þeirra er mismunandi fyrir og eignasöfnin eru ekki eins. Hrafn vill halda því til haga að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna hafi verið sterk síðustu ár og þeir hafi aukið lífeyrisréttindi verulega.

Þær reglur gilda að ef loforð lífeyrissjóðs um lífeyri eru meira en 10% umfram eignir, miðað við 3,5% raunávöxtun til framtíðar, þá ber lífeyrissjóði að grípa strax til ráðstafana. Ef loforðin eru 5-10% umfram eignir í lengri tíma þarf einnig að gera ráðstafanir. Líklegt er að sjóðirnir séu komnir í þessa stöðu, að mati stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ekki á bætandi

Formaður Landssambands eldri borgara segir að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafi fullvissað fulltrúa sambandsins um að þessar hræringar myndu ekki leiða til skerðingar. „Maður gat svo sem átt von á þessu því þeir hafa verið að fjárfesta í hlutabréfum og slíku. Ég stóð í þeirri trú að þegar stofnað var til lífeyrissjóðanna hafi þeim verið sett mjög ströng skilyrði um ávöxtun síns fjár, mættu ekki setja það í áhættusöm bréf,“ segir Helgi K. Hjálmsson. „Það er skelfilegt ef kemur til skerðingar og ekki á bætandi fyrir veslings lífeyrisþega og eldri borgara sem stóla á þetta. Er ekki úr háum söðli að detta,“ segir Helgi.

Í samþykkt stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða kemur fram að ekki hafi verið gengið frá samningum um aðkomu lífeyrissjóðanna til að styrkja krónuna. Ef ríkisstjórnin sjái ástæðu til að taka þennan þráð upp aftur muni forystusveit Landssamtaka lífeyrissjóða fjalla um erindið á nýjum forsendum, í ljósi þess að allar aðstæður hafi gjörbreyst með neyðarlögunum frá Alþingi og afleiðingum þeirra.

Í hnotskurn
» Heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna voru í lok júlí síðastliðins um 1800 milljarðar króna.
» Erlendar eignir voru 493 milljarðar króna, þar af 360 milljarðar í hlutabréfum.
» Sjóðirnir áttu um 180 milljarða króna í íslenskum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum og 171 milljarð í innlendum skuldabréfasjóðum. Heildareignir hér á landi voru tæpar 1.250 milljarðar króna.