Fáninn Enginn veit hvernig vörumerki Glitnis, a.m.k. ekki innlenda hlutans, mun líta út eftir að starfseminni hefur verið skipt upp.
Fáninn Enginn veit hvernig vörumerki Glitnis, a.m.k. ekki innlenda hlutans, mun líta út eftir að starfseminni hefur verið skipt upp. — Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is STJÓRN og stærstu hluthafar í Glitni, þ.e.a.s. stærstu hluthafar þar til 29. september sl.

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

STJÓRN og stærstu hluthafar í Glitni, þ.e.a.s. stærstu hluthafar þar til 29. september sl. voru fram eftir degi í gær ekki af baki dottnir varðandi kröfuna um að ríkissjóður efndi gerðan samning og greiði 600 milljónir evra til bankans fyrir 75% hlutafjár í Glitni.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hvikuðu Glitnismenn lengi vel í engu frá þeirri afstöðu sinni að ríkið væri bundið af þeim samningi sem undirritaður var mánudaginn 29. september sl. Viðmælendur úr röðum Glitnismanna sögðu í samtölum í gær, að setning neyðarlaga í fyrradag breytti þar engu um. „Samningur er samningur, málið er ekkert flóknara en það,“ sagði einn. Fulltrúar frá Glitni gengu á fund Fjármálaeftirlitsins í gærmorgun, þar sem málefni Glitnis voru rædd. Þar munu Glitnismenn hafa lýst því sjónarmiði, að þeir teldu að FME, sem neyðarlögin myndu setja yfir bankann, yrði að hafa hagsmuni bankans að leiðarljósi og þar með beita sér fyrir því að ríkissjóður legði fram umsamið hlutafé. FME mun hafa tekið þeirri málaleitan dræmt og fulltrúar þess sagt að þeir teldu slíka hagsmunabaráttu ekki vera í sínum verkahring.

Vildu flýta hluthafafundi

Stjórnvöld eru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, eindregið þeirrar skoðunar að forsendubrestur sé til staðar og að samkvæmt neyðarlögunum verði nýr banki stofnaður um innlenda starfsemi Glitnis nú fyrir helgi. Því verði eitt félag á ábyrgð ríkisins ábyrgt fyrir innlendri bankastarfsemi Glitnis og annað félag á ábyrgð fyrri eigenda ábyrgt fyrir erlendri starfsemi. Sömu vinnubrögð verði höfð um slíka uppskiptingu og verði viðhöfð í tengslum við uppskiptingu á starfsemi Landsbankans.

Ef marka má þau viðbrögð sem heyrst hafa frá Glitnismönnum er afar líklegt að þeir geri sér nokkuð góða grein fyrir því að þessi hlutafjárleikur er tapað spil og engar 600 milljónir evra munu renna inn í Glitni í formi nýs hlutafjár.

Þeir munu einnig hafa óskað eftir því í gær að FME flýtti fyrirhuguðum hluthafafundi Glitnis, sem boðaður hefur verið á laugardag og boðaði til hans þegar í stað. FME varð ekki heldur við þessari ósk hluthafanna, sem væntanlega horfa þá fram á það að halda hluthafafund í allt öðru félagi á laugardag en þeir hafa verið meirihlutaeigendur í allt til 29. september sl.

Hluthafafundur Glitnis á laugardag verður sennilega hálfmáttlaus samkunda, þar sem hann verður haldinn í félagi þar sem verður búið að skilja alla innlenda starfsemi frá félaginu og gamla félagið situr uppi með erlendu skuldasúpuna.

Við þetta eru Glitnismenn einnig afar ósáttir því þeir telja að gjörningar undanfarna daga hafi kostað bankann óumræðileg verðmæti, því eignasafn hans erlendis hafi nánast fuðrað upp, en það er önnur saga.

S&S

Út á hvað gekk samkomulag Seðlabankans og meirihluta hluthafa í Glitni hinn 29. september sl.?

Seðlabankinn lagði til við ríkisstjórnina að ríkið legði 600 milljónir evra inn í Glitni í formi nýs hlutafjár og eignaðist við það 75% hlut í bankanum. Það var samþykkt en gagnrýnt mjög harkalega eftir á, af þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stjórnarformanni Baugs, stærsta hluthafans í Stoðum sem áttu tæp 32% í Glitni og Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis.

Hvers vegna telja stjórnvöld að nú sé fyrir hendi forsendubrestur (tilefni til þess að rifta samningnum)?

Stjórnvöld telja að neyðarlögin sem sett voru í fyrradag geti tekið til allra fjármálastofnana og eitt verði látið yfir alla ganga í þeim lánastofnunum sem FME komi til með að taka völdin tímabundið. Eiginfjárstaða og lausafjárstaða Glitnis sé fjarri því að vera hin sama og þegar samningurinn var gerður og bankinn verði því meðhöndlaður samkvæmt því.