OF snemmt er að segja til um hvaða áhrif neyðarlögin, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrrakvöld, muni hafa á sparisjóðina í landinu. Þetta er mat þeirra sparisjóðsstjóra sem haft var samband við í gær.

OF snemmt er að segja til um hvaða áhrif neyðarlögin, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrrakvöld, muni hafa á sparisjóðina í landinu. Þetta er mat þeirra sparisjóðsstjóra sem haft var samband við í gær. Þeir eru hins vegar almennt frekar jákvæðir gagnvart lögunum.

Samkvæmt neyðarlögunum fær fjármálaráðherra heimild til að leggja sparisjóði til fjárhæð til að geta tryggt sparisjóðastarfsemina í landinu.

„Miðað við þá stöðu sem komin er upp í íslensku samfélagi og íslensku fjármálakerfi sýnist mér lögin vera nokkuð hliðholl sparisjóðunum,“ segir Ragnar Zophanías Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs. „Það af leiðandi finnst mér þetta að mörgu leyti jákvætt.“ Ragnar tekur hins vegar fram að hann sé ekki búinn að kynna sér lögin til hlítar.

Ásgeir Sólbergsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Bolungarvíkur, segir að honum lítist ágætlega á neyðarlögin. Margt sé hins vegar óljóst enda ekkert samband verið haft við sparisjóðina við vinnslu þessa máls. „En þetta er í sjálfu sér viðurkenning á því að sparisjóðir eigi að fá að starfa áfram.“

Ólafur Jónsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Siglufjarðar, segir að sjóðurinn hafi ekki verið þátttakandi á hlutabréfamarkaði og það sé því ekki að plaga hann. „Obbinn af okkar viðskiptavinum eru einstaklingar. Þar eru erfiðleikarnir í dag og ekki liggur fyrir hve langvinnir þeir verða. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru þó allar í rétta átt.“

Jónas Pétursson, starfandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, segir fljótt á litið verið að færa mikil völd til Fjármálaeftirlitsins. Eftir eigi að koma í ljós hvernig þau völd verði nýtt. gretar@mbl.is