Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is Starfsfólki Landsbankans var verulega brugðið þegar tilkynnt var að Fjármálaeftirlitið hefði skipað skilanefnd sem tæki yfir stjórn Landsbankans.

Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

Starfsfólki Landsbankans var verulega brugðið þegar tilkynnt var að Fjármálaeftirlitið hefði skipað skilanefnd sem tæki yfir stjórn Landsbankans. Tilkynning um það var birt í fjölmiðlum í gærmorgun og heyrðu starfsmenn bankans tíðindin á sama tíma og aðrir landsmenn.

Þungt andrúmsloft

Enginn þeirra almennu starfsmanna Landsbankans sem blaðamaður 24 stunda ræddi við í gær vildi koma fram undir nafni. Allir voru þeir á einu máli um að andrúmsloftið í útibúunum væri þungt og starfsfólk óttaðist um sinn hag.

„Ég vil bara fá að vita hvort það verði gengið framhjá mínum samningsbundnu réttindum,“ sagði gjaldkeri í einu útibúi Landsbankans í Reykjavík í gærmorgun.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, sagði í samtali við 24 stundir að þar hefði síminn vart stoppað. „Fólk er bara mjög áhyggjufullt og uggandi um sína stöðu. Þessi ákvæði laganna um að aðilaskiptalögin myndu ekki gilda fóru rosalega illa í fólk.“

Gagnrýnir skort á samráði

Á blaðamannafundi sem haldinn var í Iðnó í gær tók Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hins vegar af öll tvímæli um að almennir starfsmenn myndu halda öllum sínum samningsbundnu réttindum. Friðbert segir að sú yfirlýsing hafi verið afar mikilvæg. „Af þessari yfirlýsingu ráðherra og samtölum mínum við aðra ráðamenn að dæma tel ég alveg ljóst að það stendur ekki til að skerða lögbundin réttindi okkar félagsmanna.“

Friðbert gagnrýnir hins vegar skort á samráði og upplýsingagjöf. „Ég gagnrýni mjög að við skyldum ekki hafa verið kölluð til umsagnar um frumvarpið sjálft. Við þurftum að bíða eftir upplýsingum úr fréttum og ég er eiginleg alveg bit á þessum vinnubrögðum.“

Þekkir þú til?

Í hnotskurn
Starfsmenn Landsbankans á Íslandi eru rétt um fimmtán hundruð talsins í fjörutíu útibúum um allt land. Viðskiptavinur Landsbankans sem hringdi í útibússtjóra á landsbyggðinni í gærmogun til að grennslast fyrir um sín mál sagðist hafa þurft að eyða jafnmiklum tíma í að stappa stálinu í útbússtjórann og í að sinna sínu.