Rúnar Óli Bjarnason
Rúnar Óli Bjarnason
Rúnar Óli Bjarnason fjallar um skuldir heimilanna: "Tal um Evrópusambandsaðild og evru þarf að sitja á hakanum. Ríkið haldi að sér höndum í útgjöldum og rýmki getu heimilanna til sparnaðar."

NÚ þegar veruleg hætta steðjar að hagkerfinu er brýnna en nokkru sinni fyrr að ríkið haldi að sér höndum í útgjöldum og rýmki getu heimilanna til sparnaðar. Þegar harðnar í ári er réttast að setjast niður af yfirvegaðri ró og hreinskilni við sjálfan sig og fara yfir stöðuna eins og hún er. Það ber að horfast í augu við blákaldan raunveruleikann. Útgjöld sem áður þóttu ómissandi þarf að endurskoða í ljósi nýrra aðstæðna, og skýjaborgir þarf að láta líða út í buskann til að bíða betri tíma.

Í hinni miklu uppsveiflu undanfarinna ára í íslensku efnahagslífi gerðu menn sér hugmyndir um að hún gæti enst að eilífu, að það væri hægt að taka endalaust útlán gagnvart framtíðinni og aldrei kæmi að skuldadögum. Skuldir heimilanna hafa aukist ár frá ári um fimmtung, og útgjöld hins opinbera jafnhratt þar á ofan. En nú hafa utanaðkomandi aðstæður bundið enda á góðærið. Það er kominn haustmorgunn, og mál að vakna af blundi sumarsins. Við verðum að bretta upp ermarnar og taka höndum saman um að finna leiðir til að heyja fyrir veturinn.

Núverandi aðstæður kalla á forgangsröðun og endurskoðun hjá hverju heimili, sveitarfélagi og hjá ríkinu. Það þarf ekki að eyða orðum um það að skattar eru einmitt stærsti útgjaldaliður heimilanna, eða nærri helmingur af heildarútgjöldum. Það ber því að athuga af raunsæi hvort ekki er hægt að létta heimilunum róðurinn nú, og minnka útgjöld og umsvif ríkis og sveitarfélaga, sem hafa vaxið ævintýralega undanfarin árin. Falla þarf frá slíkri augljósri fásinnu og tónlistarhúsi upp á tuttugu milljarða, fæðingarorlofi fyrir vel stæða upp á fimm milljarða árlega, og svo framvegis. Höfum við virkilega efni á þessu öllu eins og staðan er? Spyrji sig nú hver og einn í fullri hreinskilni.

Fyrir fjórum árum fór ungliðahreyfing eins stjórnmálaflokksins yfir fjárlögin með niðurskurð í huga og kom með tillögu um sparnað upp á 63 milljarða árlega, án þess að hrófla við heilbrigðis- eða menntakerfi. Þá er ekki minnst á þá tugi milljarða sem fjárlögin hafa síðan vaxið um. Er ekki vert að athuga þær tillögur nú?

Að sama skapi og útgjöld þurfa að lækka þarf að huga að sparnaði. Því hefur löngum verið komið svo fyrir hér á landi að menn hafa fengið vaxtabætur fyrir að taka lán, en er refsað í formi fjármagnstekjuskatts fyrir að leggja inn á sparibók. Það liggur beint við nú sem aldrei fyrr að afnema fjármagnstekjuskattinn til að ýta undir sparnað. Aðrir liðir sem kæmu heimilunum vel væru afnám innflutningsgjalda og tolla, eða skylduáskriftar að nýjustu bandarísku gamanþáttaröðunum í ríkisútvarpinu.

Hvað sem öðru líður, þá þurfa ráðamenn að fara sér ákaflega varlega. Það væru skelfileg mistök að þyngja fyrir heimilum, atvinnuveitendum og bönkum á þessari stundu með auknum umsvifum, útgjöldum og reglugerðum hins opinbera.

Tal um Evrópusambandsaðild og evru þarf að sitja á hakanum. Það verður að athuga í framhaldinu hvort ekki sé hægt að koma gjaldmiðlinum okkar á sterkari fót, en það þarf ekki að gera út af við krónuna. Til dæmis er hægt að tengja hana við gull og silfur án þess að spyrja kóng eða prest. Dýrmálmar eru stöðugri en bæði Bandaríkjadalur og evra gagnvart raunverulegum afurðum.

En það sem allra síst kemur til með að skila okkur árangri er sala á rógi, öfund og ótta. Fyrir þá hluti fæst ekki mikið þessa dagana, enda framboð gífurlegt. Það er ljóst að ýmsir högnuðust vel á því góðæri sem á undan er gengið, en tortryggni og reiði í þeirra garð verður okkur ekki skjól í þeim stormi sem skollinn er á utanað úr heimi. Ekki verður heldur mikil huggun í heimsendaspám jafnvel þótt þær rætist.

Landar mínir, það er kominn tími til að mannast. Himinninn er ekki að hrynja. Sú þjóð sem ég þykist þekkja lætur engan draga sig í þrot og volæði. Hér er undirstaðan sterk. Krafturinn og hugvitið í fólkinu á sér engin takmörk, og Íslendingar vita það innra með sér að þann auð sem á Íslandi finnst er hvorki hægt að mæla í krónum, evrum né silfri.

Höfundur er Norðlendingur og starfar við hugbúnaðargerð.