Í faðmi fjölskyldunnar Samverustundir fjölskyldunnar eru börnum mikilvægar og ekki er nauðsynlegt að um skipulega skemmtidagskrá sé að ræða.
Í faðmi fjölskyldunnar Samverustundir fjölskyldunnar eru börnum mikilvægar og ekki er nauðsynlegt að um skipulega skemmtidagskrá sé að ræða. — Reuters
Hinn tíunda október næstkomandi er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

Hinn tíunda október næstkomandi er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Á hverju ári er leitast við að beina athyglinni að ákveðnum þáttum geðheilbrigðis og í ár er athyglinni beint að málefnum ungs fólks með sérstaka áherslu á mikilvægi uppbyggjandi samveru.

Ekkert er heilbrigði án geðheilbrigðis. Eitt af því sem hjálpar okkur að þola mótlæti og eykur vellíðan okkar almennt eru jákvæð samskipti okkar við aðra.

Eitt geðorðanna er á þessa leið: „Hlúðu að því sem þér þykir vænt um.“ Þar er átt við allt sem lifir og þarfnast umhyggju og ástar. Að geta veitt einhverjum þessa mikilvægu næringu fyrir sálina gefur okkur tilgang í lífinu auk þess sem það bætir líf annarra.

Oft heyrum við talað um aukinn hraða og auknar kröfur í nútímasamfélagi. Eitt er víst að margir sinna fjölbreyttari hlutverkum en áður. Foreldrar vinna flestir úti, og deila því í auknum mæli ábyrgð á börnum og búi. Fólk eignast börn seinna á ævinni eða eignast ekki börn.

Samveran mikilvæg

Annað geðorð er: „Flæktu ekki líf þitt að óþörfu“ og á tíma fjölbreyttra hlutverka og hraða er ekki síst mikilvægt að skoða líf sitt með þetta í huga og sjá til þess að það sem mestu máli skiptir komist fyrir.

Fyrir nokkrum árum var mikið fjallað um að í uppeldinu væru það gæðastundir sem skiptu máli en ekki lengd samverunnar. Nýrri rannsóknir hafa þó sýnt að svo er ekki. Það er einmitt tíminn sjálfur sem skiptir meira máli. Góðu fréttirnar eru þær að ekki þarf að vera skipulögð skemmtidagskrá til þess að hin verndandi áhrif samveru komi fram. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli, að trítla saman í þvottahúsið, lita við eldhúsborðið og horfa saman á barnatímann. Stundum virðist fólk halda að eldri börn geri meiri kröfur um hvað samvera skuli innihalda. Íslenskar kannanir hafa þó sýnt að eldri börn vilja einnig vera með foreldrum sínum, og það eru ekki flóknir hlutir sem þau óska sér. Samveran sem þau nefna er að borða saman kvöldmat, spjalla saman, fara í gönguferðir, horfa saman á sjónvarpið og þess háttar.

Fjölskylda eða vinir?

Þegar rætt er um samveru er gjarnan lögð áhersla á fjölskylduna sem einingu en flestir tilheyra fjölskyldu á einn eða annan hátt. Því má þó ekki gleyma að stundum er fjölskyldan ekki til þess fallin að veita uppbyggilegan stuðning og stundum er of mikil áhersla á að hún „eigi“ að veita ákveðinn stuðning. En stuðning og uppbyggilega samveru má finna annars staðar. Ef maður á góða vini geta þeir oft veitt þann stuðning sem á þarf að halda. Stundum getur það verið tímabundið, til dæmis meðal unglinga sem finnast foreldrarnir ekki skilja sig og fá þá stuðning hjá félögunum. Í öðrum tilfellum á fólk alls ekki samleið þrátt fyrir að tilheyra sömu fjölskyldu og þá getur verið gott að eiga annað fólk að.

Hvort sem það er fjölskyldan eða vinirnir er víst að samvera með fólki sem okkur líður vel með bætir andann og styrkir okkur.

Í hnotskurn
» Á tíma fjölbreyttra hlutverka og hraða er mikilvægt að skoða líf sitt með það í huga og flækja hlutina ekki að óþörfu og sjá til þess að það sem mestu máli skiptir komist fyrir.
» Lengd samverustunda fjölskyldunnar skiptir miklu máli og eldri börn njóta þess ekki síður að gera hversdaglega hluti með foreldrum sínum en þau yngri..
» Góðir vini geta líka oft veitt þann stuðning sem á þarf að halda.

Jenný Ingudóttir, MPH verkefnisstjóri, Lýðheilsustöð