Nú er þörf á nýjum hugmyndum, nýrri nálgun, nýrri hugmyndafræði. Þess vegna hlýtur að vera við hæfi að um þessar mundir skuli á fjörur okkar reka sýning á uppfinningum Leonardos da Vincis.

Nú er þörf á nýjum hugmyndum, nýrri nálgun, nýrri hugmyndafræði. Þess vegna hlýtur að vera við hæfi að um þessar mundir skuli á fjörur okkar reka sýning á uppfinningum Leonardos da Vincis. Gripirnir á þessari sýningu eru gerðir nákvæmlega eftir teikningum hans og sýna hvað listamaðurinn, heimspekingurinn og uppfinningamaðurinn var langt á undan sinni samtíð.

Á krepputímum hljóta afþreyingarkostir bókarinnar að blasa við. Bókin getur veitt félagsskap heilu kvöldin og ef hún er ekki í hillunni er hægt að sækja hana á bókasafnið. En hvernig bókmenntir eiga upp á pallborðið á þessum tímum? Leita menn í Fallið eftir Camus eða Ógleðina eftir Sartre, Mann í lausu lofti eftir Bellow eða Sjálfstætt fólk eftir Laxnes? Eða kannski bara Pollýönnu eða Birtíng til að átta sig á því að allt sem gerist er fyrir hinu besta.

Undanfarna mánuði hefur talsvert verið skrifað um það hvort spilling þrífist í knattspyrnunni í Evrópu og úrslitum sé hagrætt til að maka krókinn í veðmálum. Víkverji hefur verið á því að ólíklegt væri að slíkt teygði anga sína til Íslands vegna þess að það væri einfaldlega ekki jafnmikið í húfi og víða annars staðar í Evrópu. Nú er hins vegar komið fram að KSÍ lét rannsaka ásakanir um mútur í tengslum við leik HK og Grindavíkur í september. Kom fram að leikmenn úr hvoru liði hefðu haft samband, en ekki var unnt að sýna fram á að þau hefðu verið saknæm. Líkt og aðrar íþróttir heillar fótboltinn af þeirri einföldu ástæðu að úrslitin eru ekki ráðin. Hvað sem yfirburðum líður á pappír geta allir unnið alla. Ef rangt er haft við kemur brestur í samband íþróttarinnar við áhangendurna og það getur smitað út frá sér. Það var því gott að ekki fundust neinar vísbendingar um misferli, en niðurstaðan hefði mátt vera afdráttarlausari.