Bakkabræður Félag Ágústs og Lýðs Guðmundssona, Bakkabræður Holding, á 45% hlut í Exista.
Bakkabræður Félag Ágústs og Lýðs Guðmundssona, Bakkabræður Holding, á 45% hlut í Exista. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur camilla@mbl.is EIGNARHALDSFÉLAGIÐ Exista seldi í gær tæplega 20% hlut sinn í finnska tryggingafélaginu og bankanum Sampo. Bókfært tap vegna sölunnar verður 1,4 milljarðar evra á fjórða ársfjórðungi.

Eftir Guðnýju Camillu Aradóttur

camilla@mbl.is

EIGNARHALDSFÉLAGIÐ Exista seldi í gær tæplega 20% hlut sinn í finnska tryggingafélaginu og bankanum Sampo. Bókfært tap vegna sölunnar verður 1,4 milljarðar evra á fjórða ársfjórðungi.

Um miðjan dag í gær var tilkynnt að hlutirnir væru seldir og var söluverðmætið um 1,3 milljarður evra. Skuldir Exista lækka því sem því nemur. Samkvæmt sex mánaða uppgjöri félagsins lækkuðu skuldir þess um einn milljarð frá síðustu áramótum.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segir söluna greiða fyrir stýringu félagsins í þeim erfiðu aðstæðum sem ríki á fjármálamörkuðum. Ekki séu áætlanir um frekari sölu eigna.

Bakkavör, sem er að hluta til í eigu Exista, seldi einnig í gær tæplega 11% hlut sinn í írska samlokuframleiðandanum Greencore. Söluverðmætið nemur rúmum 28,6 milljónum evra. Hlutur Bakkavarar í félaginu var á fyrri hluta árs metinn á um 10 milljarða króna.

Baugur selur ekki

Fjallað er um þessi viðskipti félaganna á vef Financial Times í gær og er þar talað um að íslensk fyrirtæki séu byrjuð að hörfa frá Bretlandi.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, segir sölu erlendra eigna Baugs ekki fyrirhugaða.

„Nei, það væri alveg fráleitt miðað við hvernig markaðurinn er í dag. Ef þú ætlar að eyðileggja eigur, þá selurðu þær í dag,“ segir Jón Ásgeir. „Það er enginn markaður fyrir svona eigur í dag.“ Markaðurinn í dag sé ekki seljendamarkaður.

„Við eigum góð fyrirtæki sem eru að afla gjaldeyris fyrir Íslendinga erlendis þannig að við verðum að halda í þau. Þau hafa aldrei verið verðmætari en núna.“

Í hnotskurn
» Eignir Exista erlendis eru alþjóðleg fjarskiptafyrirtæki innan Skipta auk tæplega 9% hlutar í norska tryggingafélaginu Storebrand.
» Bakkavör rekur matvælafyrirtæki í 10 löndum.
» Exista á 39,6% hlut í Bakkavör og 24,5% hlut í Kaupþingi.