„ÉG verð nú bara í vinnunni á afmælisdaginn því ég er búinn að halda veisluna,“ sagði Þorvaldur Pálmason þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

„ÉG verð nú bara í vinnunni á afmælisdaginn því ég er búinn að halda veisluna,“ sagði Þorvaldur Pálmason þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. „Veislan heppnaðist gríðarlega vel en þetta var blanda af reykvískri montveislu þar sem menn ráfa um í leit að einhverjum að tala við og borgfirskri rómantík með balli og réttarstemningu þar sem Upplyfting sá um fjörið,“ segir Þorvaldur inntur eftir 200 manna afmælisveislunni sem haldin var síðastliðið laugardagskvöld. „Það var gott að geta slegið á létta strengi í nokkra klukkutíma og lokað úti efnahagsáhyggjurnar,“ bætir afmælisbarnið við.

Þorvaldur starfaði hátt í þrjá áratugi sem kennari í Borgarfirði en er nú verkefnastjóri upplýsingatækni, fjarkennslu og kennsluþróunar við menntavísindasvið Háskóla Íslands. „Annars er ég sveitamaður og sjóari úr Staðarsveit á Snæfellsnesi og því aðkomumaður hér í Reykjavík,“ segir Þorvaldur.

Í frístundum sinnir Þorvaldur berjatínslu af ástríðu og stendur ásamt öðrum að baki vefnum berjavinir.com þar sem markmiðið er fyrst og fremst að vekja athygli á villtum berjum í íslenskri náttúru. Svo spilar Þorvaldur einnig keppnisbridds reglulega. Hann er giftur Sigríði Einarsdóttur og á tvö börn og tvö uppeldisbörn. „Svo á ég töluvert af barnabörnum,“ segir Þorvaldur að lokum. jmv@mbl.is