[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@24stundir.is Það er hefð fyrir því í tónlistarsögunni að þegar listamenn ná sér upp úr áralangri neyslu fíkniefna taki þeir svo vel til í sjálfum sér að það hafi afar jákvæð áhrif á listsköpun þeirra.

Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@24stundir.is

Það er hefð fyrir því í tónlistarsögunni að þegar listamenn ná sér upp úr áralangri neyslu fíkniefna taki þeir svo vel til í sjálfum sér að það hafi afar jákvæð áhrif á listsköpun þeirra. Sumir tónlistarmenn gefa beinlínis út sínar bestu plötur í nýfenginni edrúmennsku. Nóg er að nefna plöturnar Blood on the Tracks með Bob Dylan og Tender Prey með Nick Cave sem góð dæmi um hvernig listamenn gera upp skuggalega fortíð sína í gegnum tónlist. Báðar afar mannlegar plötur þar sem listamennirnir fjalla um breytt andlegt ástand sitt án þess að missa sérkenni sín. Það getur því oft verið blessun að leggja rokkarann á hilluna, hvað sköpun varðar, en þannig er það því miður ekki í tilfelli Mike Skinner sem við þekkjum betur sem The Streets.

Það er eiginlega hálfsorglegt að hlusta á þennan hárbeitta textasmið skipta alveg um gír, frá því að fjalla um skítugri hluta breskrar menningar yfir í umhverfisáróður, endalaust niðurrif varðandi tilhugalíf sitt og vangaveltur um hvort sé betra að eyða eftirlífinu í himnaríki eða helvíti. Það sem var aðlaðandi við The Streets, línulegar frásagnir um afskaplega venjulegt ungt fólk í skítnum, er horfið. Það er góði hljómurinn líka. Af einhverjum ástæðum er heildarhljómur þessarar plötu mun mattari og kraftlausari en áður, eins og teppi sé yfir hátalaranum.

Auðvitað er mikilvægt á þessum hörðum tímum að boða von og kærleika en það verður að viðurkennast að það fer Mike Skinner alveg einstaklega illa. Hann tapar sér of mikið í tilgerðarlegum hressleika og skiptir út kaldhæðni í textum sínum fyrir sjálfsvorkunn. Ef maður horfir framhjá þessu verður að viðurkennast að Skinner hefur ekki misst næmi sitt í að skapa sæmileg lög. I Love You More og Never Give In eru sæmilegustu smíðar, en þau eru ekki nægilega sterk til að halda plötunni á floti.