Heima-heiman „Sýningin byggir á ljósmyndum af nokkrum einstaklingum sem hafa flúið til Íslands ...“
Heima-heiman „Sýningin byggir á ljósmyndum af nokkrum einstaklingum sem hafa flúið til Íslands ...“
Sýningin stendur til 23. nóvember. Opið virka daga frá kl. 12-19 og um helgar frá kl. 13-17. Aðgangur ókeypis.

Á sýningunni Heima – heiman í Ljósmyndasafni Reykjavíkur vinna þær Kristín Elvarsdóttir ljósmyndari og Sigrún Sigurðardóttir sagn- og menningarfræðingur saman að sýningu sem fjallar um flóttamenn og hælisleitendur á Íslandi. Sýningin byggist á ljósmyndum af nokkrum einstaklingum sem hafa flúið til Íslands og búið hér í lengri eða skemmri tíma. Brot úr viðtölum við þau í textaformi og hljóðskrám ásamt tölulegum upplýsingum um fjölda flóttamanna í heiminum hafa meira yfirbragð kynningarefnis á málefnum en listviðburðar. Spurning vaknar um hvort sá gjörningur að setja upp sýningu og vekja athygli á einhverju ákveðnu málefni í samtímanum hafi eitthvað með listhugtakið að gera.

Listhugtakið er orðið svo vítt í samtímanum að allt getur talist list en ég er ekki viss um að sýningin sé hugsuð sem listviðburður heldur hef grun um að hún sé frekar hugsuð sem innlegg í málefni sem full ástæða er til að beina sjónum að, þ.e. málefni flóttamanna. Hvort heldur sem er þá finnst mér sýningin hvorki ná áhugaverðu listrænu vægi né ná máli sem alvöru innlegg í umræðuna um flóttamenn. Það breytir því ekki að myndir Katrínar eru fallegar og endurspegla virðingu hennar og næmi gagnvart viðfangsefninu og texti Sigrúnar vísar til grunnstaðreynda um málefni sem sannarlega eiga erindi í umræðuna. Vandinn liggur frekar í því hvernig einstaklingarnir verða að efniviði sjónrænnar framsetningar og tilfinningaþrunginnar orðræðu án þess að tilgangurinn sé ljós.

Þóra Þórisdóttir