Sælleg Britney Spears tekur sæl og glöð við verðlaunum á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í haust.
Sælleg Britney Spears tekur sæl og glöð við verðlaunum á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í haust. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki langt síðan slúðurmiðlar heimsins voru fullir af svörtum spám um afdrif poppprinsessunnar Britney Spears. Hver dálksentimetrinn af öðrum var fylltur af hneykslanlegum fréttum af hegðun hennar sem var með hinu furðulegasta móti.

Það er ekki langt síðan slúðurmiðlar heimsins voru fullir af svörtum spám um afdrif poppprinsessunnar Britney Spears. Hver dálksentimetrinn af öðrum var fylltur af hneykslanlegum fréttum af hegðun hennar sem var með hinu furðulegasta móti. Myndir náðust af henni raka af sér hárið, svipta nærbuxnalaus upp um sig pínupilsum, undir áhrifum vímuefna, með misgáfulega karlmenn upp á arminn.

Hún hótaði að fremja sjálfsmorð, stóð í forræðisdeilum við barnsföður sinn, Kevin Federline, og missti forræði yfir sonunum tveimur til hans. Ekki sá fyrir endann á ógæfu hennar og botninum var náð er hún fékk taugaáfall í upphafi þessa árs og var flutt í skyndi á sjúkrahús. Aðstandendur Spears báðu fjölmiðla um vægð eftir sjúkrahúsinnlögnina og urðu þeir við þeirri bón. Hin saklausa mey sem kom eins og bleikur andblær inn í poppheiminn fyrir nokkrum árum var útötuð og hlakkaði í mörgum yfir falli hennar. Flestir bjuggust við að ekki yrði aftur snúið fyrir Spears og hún myndi lifa á fornri frægð til dauðadags en annað hefur nú komið á daginn, stjarnan hefur snúið aftur.

Í sumar fór að kræla lítillega á Spears í fjölmiðlum, myndir af henni sællegri á sólarströnd birtust öðru hverju og voru athugasemdirnar jafnan jákvæðar. Hún var komin í fantaform, leit vel út og virtist vera að jafna sig.

Það var svo er líða tók að hausti sem Spears fór að birtast á opinberum samkomum og gefa fjölmiðlum færi á sér, en nú á allt annan hátt en áður.

Í ágúst birtist hún á forsíðu OK! í sínu fyrsta viðtali í tvö ár að sögn blaðsins. Stór myndasyrpa fylgdi viðtalinu og allar sýndu myndirnar hana hvítklædda, með bros á vör og börnin sín tvö. Í viðtalinu ræddi hún mikið um guð og fjölskylduna, ímyndin var orðin allt önnur, hún var hvítþvegin.

Endurkoman náði síðan nýjum hæðum í september er hún fékk þrenn verðlaun á bandarísku MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni, sviðsljósið varð aftur hennar. Söngkonan vinnur nú að nýrri plötu sem á að koma út á 27 ára afmælisdegi hennar, 2. desember næstkomandi. Platan hefur hlotið nafnið Circus og má ætla að hún verði einhvers konar uppgjör við fyrra líf hennar sem minnti oftar en ekki á fjölleikahús. Miklar væntingar eru gerðar til þessa grips sem vonandi munu standast Spears vegna.

Fréttaflutningur af Spears hefur allur færst í annað horf, fréttirnar í dag snúast um væntanlega plötu, góðgerðarstarf sem hún virðist einbeita sér að um þessar mundir og fjölskylduna en hún hefur fengið aukinn umgengnisrétt yfir sonunum.

Þeir sem spáðu falli Britney Spears verða nú líklega að éta hatt sinn því meyjan er upprisin, jafnvel hreinni en fyrr.

ingveldur@mbl.is

Ingveldur Geirsdóttir