Væringar? Gordon Brown með David Miliband utanríkisráðherra á þingi Verkamannaflokksins í september eftir að leiðtoginn hafði flutt ræðu sína.
Væringar? Gordon Brown með David Miliband utanríkisráðherra á þingi Verkamannaflokksins í september eftir að leiðtoginn hafði flutt ræðu sína. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is Við þessar aðstæður er „ekki rétti tíminn til að láta nýliða“ spreyta sig, sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sinni á flokksþingi Verkamannaflokksins í september.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Við þessar aðstæður er „ekki rétti tíminn til að láta nýliða“ spreyta sig, sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sinni á flokksþingi Verkamannaflokksins í september. Hart hafði verið sótt að honum fyrir þingið en Brown virðist hafa tekist að snúa taflinu við, m.a. með því að færa flokkinn til vinstri. Það gæti reynst vinsælt í kreppu kapítalismans og nú er munurinn á Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum í könnunum miklu minni en verið hefur síðustu mánuði, hann er um 10%.

Líklega hefur Brown tekist að tryggja stöðu sína fram að næstu kosningum sem verða ekki síðar en árið 2010. Hann var eldsnöggur að átta sig á því að nú væri rétti tíminn til að dusta rykið af gömlum vinstri-slagorðum.

Tony Blair lagði á sínum tíma áherslu á að færa flokkinn inn á miðju og jafnvel lengra, það hentaði þá og dugði til sigurs 1997. Pólitískir loftfimleikar Browns, sem að sjálfsögðu var í öllum aðalatriðum sammála Blair, hljóta að vekja aðdáun, aðrir gætu sagt að hann sé bara að laga sig að breyttum aðstæðum. Hann segir flokkinn munu sem fyrr styðja markaðsskipulagið og einkaframtakið, en skipulagið verði að taka breytingum.

„Á sama hátt og þeir sem studdu umsvifamikil ríkisafskipti reyndust hafa rangt fyrir sér hafa þeir sem boða óheftan markaðsbúskap reynst vera á rangri leið,“ sagði ráðherrann. Hann sagði Verkamannaflokkinn vera fylgjandi því að ríkisvaldið léti mjög til sín taka, það yrði að nota tæki sín og tól til að verja litla manninn í samfélaginu fyrir hættum kapítalismans.

Stundum var sagt að Brown væri fulltrúi hefðbundinna vinstri-áherslna gagnvart einkavæðingaráformum Blairs en þar er samt um mikla einföldun að ræða. Hitt er ljóst að Brown er meira fyrir miðstýringu í gamla stílnum en Blair og hefur jafnt og þétt aukið útgjöld til margvíslegra verkefna ríkisins. En ekki þykir sá fjáraustur hafa borið nægilegan árangur. Ferill hans er því umdeildur en enginn neitar því að hann er með mikla reynslu.

Brown hefur verið afar óvinsæll í könnunum á þessu ári en hefur mjög rétt úr kútnum síðustu vikurnar. Þegar heimurinn virðist vera á hverfanda hveli, finnst mörgum Bretum líklega skást að hafa við stýrið mann sem hefur mikla reynslu af efnahagsmálunum en Brown var fjármálaráðherra frá 1997, er Verkamannaflokkurinn tók við, fram til 2007. Þá tók hann við stjórnarforystunni af Blair.

Tvær flugur í einu höggi

Ummælin um nýliða, leiðtoga án reynslu, hittu í mark og öllum er ljóst að hann átti ekki eingöngu við David Cameron, leiðtoga Íhaldsmanna, heldur einnig David Miliband utanríkisráðherra sem einkum hefur verið nefndur sem líklegur arftaki ef Brown hrökklast frá. Báðir eru þessir menn ungir og tiltölulega óreyndir.

Brown hefur oft verið sakaður um að eiga erfitt með að heilla almenning og þylur gjarnan upp hagtölur sem varla blása mörgum eldmóð í brjóst. Hann brá á það ráð að taka eiginkonu sína með upp á sviðið á flokksþinginu, hún þykir koma vel fyrir og auka veg ráðherrans, gera yfirbragð hans manneskjulegra.

Brown hélt uppi vörnum fyrir þurrpumpulegan ræðustíl sinn og alvöruþunga. „Ég fór ekki í pólitík til að verða frægur eða vinsæll,“ sagði hann og bætti við: „sem er líklega eins gott.“

Fursti friðarins?

Fyrir nokkrum dögum stokkaði Brown upp í stjórn sinni og lék óvæntan leik. Hann tók hinn umdeilda Peter Mandelson aftur inn í stjórnina en Mandelson hefur í fjögur ár setið í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel og farið þar með alþjóðaviðskipti.

Mandelson, „Fursti myrkranna“, eins og hann var uppnefndur, er afar umdeildur maður, leggur sig ekki alltaf í líma við að þóknast alþýðu manna og sækir mjög í félagsskap auðkýfinga. Hann var einn nánasti samverkamaður Tonys Blairs en varð tvisvar að hverfa úr ráðherraembætti vegna hneykslismála.

Mandelson tekur við viðskiptamálunum. Hann þykir afburðasnjall í að skipuleggja kosningabaráttu, einstakur refur og ósvífinn. En mestu skiptir að ef samstarfið tekst vel getur Brown tekist að sameina fylkingarnar, misklíðin milli hans og stuðningsmanna Blairs yrði ekki lengur til trafala.