Eftir Kristínu Ýri Gunnarsd.
kristing@24stundir.is
Foreldrar ættu að vera opnir og heiðarlegir gagnvart börnum sínum. Ræða málin af hreinskilni og fá upplifun barnanna á ástandinu. Þetta segja séra Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, séra Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur í Digraneskirkju, og Hannes Jónas Eðvarðsson, sálfræðingur og félagsráðgjafi hjá Geðhjálp, um það ástand sem er í efnahagslífinu í dag og hvernig hægt sé að verja börnin okkar fyrir neikvæðninni sem þessu fylgir.
Rifja upp gildi og verðmæti
Séra Bjarni segir að í samskiptum foreldra og barna við núverandi aðstæður sé mikilvægt að rifja upp og kenna börnunum þau gildi og verðmæti sem eru stærst og best. Þau verðmæti sem skipta okkur mestu máli og leggja grunninn að hamingju okkar eru ekki á markaði og þ.a.l. verða þau ekki fyrir skakkaföllum þótt fjármálakerfið laskist.„Góð leið til þess að gera þetta er sú að skoða myndaalbúmið saman, rifja upp ánægjulegar stundir og líka erfið tímabil,“ segir hann.
Breytum um áherslur
„Nú þarf að endurskipuleggja líf sitt og breyta aðeins um áherslur. Eyða meiri tíma með börnunum og ræða málin við þau á þeirra getustigi,“ sagði Hannes hjá Geðhjálp.„Það þarf að draga úr þessari lýsingarorðaumræðu sem er í fjölmiðlum. Þessi stóru og miklu orð hafa mun meira vægi í hugum barna en okkar. Við þurfum að ræða við þau um það raunverulega, að þau muni halda áfram í skólanum og að mamma og pabbi verði áfram til staðar þó fréttirnar séu svona neikvæðar.“