Eftir Andrés Inga Jónsson andresingi@24stundir.is Staða matvælaframleiðslu Bretlands verður könnuð til hlítar af nýstofnuðu ráði sérfræðinga, sem ætlað er að skila ríkisstjórninni tillögum að því hvernig megi tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar.

Eftir Andrés Inga Jónsson

andresingi@24stundir.is

Staða matvælaframleiðslu Bretlands verður könnuð til hlítar af nýstofnuðu ráði sérfræðinga, sem ætlað er að skila ríkisstjórninni tillögum að því hvernig megi tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. Frá þessu greindi Hilary Benn umhverfisráðherra á ráðstefnu um matvælaöryggi heimsins á 21. öldinni í gær.

Síðast í seinni heimsstyrjöld

Þetta er í fyrsta sinn síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk sem öryggi bresks matvælaiðnaðar er tekið til jafnrækilegrar athugunar. Stutt er síðan ríkisstjórn Gordons Brown setti á laggirnar efnahagsráð sem ætlað er að framkvæma hliðstæða athugun á efnahagslífi Bretlands.

Matvælaráð Benns mun leiða saman sérfræðinga í öllum hlekkjum matvælakeðjunnar – allt frá bændum til kaupmanna. Markmið þess verður að finna út hvernig bæta megi framleiðslu heima fyrir, hvernig tryggt sé að ódýr matvæli séu jafnframt næringarrík og hvernig halda megi matarverði niðri með milliríkjaviðskiptum.

„Það er kominn tími til að móta langtímastefnu í matvælamálum og ráðið mun veita þá heildarsýn sem til þarf. Það mun tryggja að stefnt verði á sjálfbært matvælakerfi, sem framleiði öruggan og hollan mat,“ segir Benn.

Ríkið styrki þróun landbúnaðar

Benn segir að ástand á matvælamörkuðum undanfarið sýni hve nauðsynlegt starf ráðsins sé.

„Hærra matarverð og aukin eftirspurn um allan heim þýðir að við getum ekki gengið að framboði matar sem vísu. Uppspretta matar okkar verður að vera örugg og trygg og geta staðið af sér áföll og kreppur.“

Peter Kendall, formaður bresku bændasamtakanna NFU, segir að miklar fjárfestingar muni þurfa til að hægt sé að auka matvælaframleiðslu nægjanlega á næstu áratugum. Þar segir Kendall að markaðurinn hafi ekki getað staðið sig nægjanlega vel og þörf muni verða á fjárfestingu ríkisins.

„Ýmis vandamál matvælakreppunnar stafa af of lágu verði og of lítilli fjárfestingu í landbúnaði á heimsvísu,“ segir hann. „Bændur sem stök fyrirtæki geta ekki staðið undir fjárfestingu sem er allt að 20 ár að gefa af sér.“

Í hnotskurn
Bretar neyta matar sem krefst sex sinnum meira ræktarlands en til er á Bretlandi. Erlendum farandverkamönnum hefur fækkað að undanförnu í landinu, sem hamlar hluta landbúnaðarframleiðslu Breta. Hækkanir á eldsneytisverði skila sér hratt til bænda.