[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Janis Joplin sukkaði alveg ferlega. Jafnvel þeir sem engin deili kunna á kempunni telja sig vita svo mikið. Það kom því á óvart að Ólafur Haukur Símonarson skyldi einblína öðru fremur á þann þátt í lífshlaupi hennar í verki sínu, Janis 27.

Janis Joplin sukkaði alveg ferlega. Jafnvel þeir sem engin deili kunna á kempunni telja sig vita svo mikið. Það kom því á óvart að Ólafur Haukur Símonarson skyldi einblína öðru fremur á þann þátt í lífshlaupi hennar í verki sínu, Janis 27. Söngkonan segir frá lífshlaupi sínu í þátíð, milli þess sem gamlir slagarar eru rifjaðir upp og drjúgt er sopið af Southern Comfort. Inn á milli glittir í fleti á listakonunni sem kveikja viðkvæmnislegar tilfinningar í brjóstum áhorfenda, en hróðurinn af þeim geðbrigðum á Ilmur Kristjánsdóttir miklu frekar en leikskáldið.

Það má segja að verkið sé einleikur sem tvær leikkonur flytja – jafnmótsagnakennt og það hljómar. Ilmur leikur og Bryndís Ásmundsdóttir syngur. Þetta form verður stundum ankannalegt, ekki síst þegar annar helmingur persónunnar flytur mónólóg um það hvernig sumir geti skilið listamannseðlið frá sjálfinu, en það geti hún ekki, hún sé algjörlega óklofin í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Fyrirfram virtist ósennilegt að nokkur gæti sungið lögin sem Janis gerði fræg svo vel færi, en Bryndís kom ánægjulega á óvart. Strax frá fyrstu tónunum vissu áhorfendur að þeir gátu treyst henni til að komast frá kvöldinu með miklum sóma. Bryndís brá sér einnig stundum í gervi ýmissa aukapersóna, sem var mjög misvel heppnað, næstum eins og það hefði verið „redding“ til að réttlæta að tvær leikkonur sinntu hlutverkinu.

Hljómsveitin var mjög þétt og má tónlistarstjórinn Jón Ólafsson vera stoltur af sínum hlut. Leikmyndin var líka haganlega hönnuð og gladdi augað, án þess þó að íburður bæri hana ofurliði.

Leikskáldinu mistókst bara því miður að flétta þessi síðustu æviár Janisar saman þannig að úr yrði áhugaverð framvinda eða þannig að heilsteypt mynd af viðfangsefninu stæði eftir. Engu að síður dreg ég ekki í efa að aðdáendum Janisar Joplin þætti þessari kvöldstund í Óperunni vel varið, því tónlistin er góð og verkið varpar þó einhverju ljósi á hinn gengna snilling.

Í hnotskurn
Hefðu getað orðið flottir cover-tónleikar, en leikverkið stendur ekki undir væntingum.