Stones Gríðarlega örvandi.
Stones Gríðarlega örvandi.
Tónlist getur haft ótrúlega hvetjandi áhrif og fengið fólk til að drífa af leiðinlegustu verk. Eins og t.d. að þrífa eða brenna hitaeiningum.

Tónlist getur haft ótrúlega hvetjandi áhrif og fengið fólk til að drífa af leiðinlegustu verk. Eins og t.d. að þrífa eða brenna hitaeiningum. Sýnt hefur verið fram á að hlauparar hlaupi lengra og hraðar notist þeir við tónlist á leiðinni, þrek geti aukist um 15 af hundraði. Eþíópíski langhlauparinn Haile Gebrselassie er m.a. þekktur fyrir að bæta ítrekað met með aðstoð lagsins „Scatman“ frá 1994.

Þessi vitneskja getur komið að notum í daglegu lífi og sannaðist það síðastliðinn sunnudag þegar leiðigjörn heimilisstörf urðu leikur einn eftir að kveikt hafði verið á útvarpinu á mínu heimili.

Á Rás 2 var í gangi þátturinn Sögur úr steinaríkinu, einn þáttur af nokkrum um feril Rolling Stones. Tónlist Stones virkar gríðarlega vel til heimilisþrifa auk þess sem hún er lögleg og hefur minni aukaverkanir en „litla gula pillan“ sem þeir félagar sungu um á sínum tíma sem helstu lífsbjörg húsmæðra.

Ég get víst ekki lagt mat á umfjöllun Ásgeirs Tómassonar þar sem hún drukknaði ítrekað í ryksuguniðinum. Inni á milli laga heyrði ég þó „umsátursástand við hótelið“ eða „börðust í gegnum múginn“. Mér skilst að KR fléttist inn í næsta þátt, óvæntur vinkill þar.

Jóhanna María Vilhelmsdóttir