Eftir Magnús Halldórsson magnush@24stundir.is Húsnæðislán Íslendinga sem tekin voru hjá bönkunum verða að öllum líkindum færð yfir til Íbúðalánasjóðs, fari svo að ríkið yfirtaki bankana, á sömu vaxtakjörum og lánasamningar gera ráð fyrir.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@24stundir.is

Húsnæðislán Íslendinga sem tekin voru hjá bönkunum verða að öllum líkindum færð yfir til Íbúðalánasjóðs, fari svo að ríkið yfirtaki bankana, á sömu vaxtakjörum og lánasamningar gera ráð fyrir. Þó er enn ekki ljóst hvernig óverðtryggð lán í erlendri mynt verða færð til Íbúðalánasjóðs en unnið er að útfærslu á þessum atriðum innan félagsmálaráðuneytisins.

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, segir engin lán hafa verið færð ennþá frá bönkum til Íbúðalánasjóðs.

Ekki hafi verið ákveðið enn hvernig staðið verði að færslu á íbúðalánunum. „Í rauninni hefur ekki verið ákveðið hvernig staðið verður að því að færa íbúðalánin til Íbúðalánasjóðs, ef til þess þarf að koma. Varðandi erlendu lánin þá liggur beinast við að þau verði yfirtekin á þeim kjörum sem gengi segir til um. Í raun er ekkert annað hægt að nota sem viðmið. Það er engin heimild til þess að breyta þeim atriðum. Það er samningsatriði milli skuldara og Íbúðalánasjóðs.“

Hrannar segir óljóst hvenær frá þessu verður gengið en málin séu í skoðun hjá stjórnvöldum. „Vonandi þarf ekki að koma til þess að færa húsnæðislánin. Það væri best. En ef til þess kemur þá mun reyna á leiðirnar sem erum tilbúin að grípa til. Ríkisstjórnin mun tryggja innistæður fólks og taka til sín húsnæðislán.“

Hlutafélag?

Hallur Magnússon, rekstrarráðgjafi og fyrrverandi starfsmaður Íbúðalánasjóðs, segir ljóst að færsla á íbúðalánum sem tekin voru hjá bönkunum til Íbúðalánasjóðs verði að vera vönduð. Miklir hagsmunir séu í húfi. „Ég held að það sé skynsamlegast að færa öll lánin frá bönkunum inn í sérstakt hlutafélag. Ég hef talað fyrir því lengi að það væri mögulegt að hjálpa bönkunum með því að leysa íbúðalán til Íbúðalánsjóðs og í staðinn útvega bönkunum lausafé. En staðan nú er vitaskuld önnur og svartari.“

Hallur segir Íbúðalánasjóð hafa mikilvægu hlutverki að gegna í því árferði sem sé framundan. Mikil ládeyða sé framundan á fasteignamarkaði og gæta verði að því að ekki verði frost á markaðnum. „Afleiðingar af því geta verið mikið atvinnuleysi og hörmungar því fylgjandi. Íbúðalánasjóður hefur byggt upp mjög örugga fjárstýringu í sinni starfsemi og það er lítil áhætta í hans starfsemi. Íbúðalánasjóður hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af afborgunum vegna þess að það hefur verið rétt jafnvægi á milli út- og innlána. Ef Íbúðalánasjóður á að halda áfram að gegna lykilhlutverki á húsnæðismarkaði þá verður að tryggja það að útfærslan á færslu á lánum banka til ríkisins verði fagleg og rétt.“

Í hnotskurn
Ekki er ljóst enn hvort íslenska ríkið þarf að grípa til þess að færa íbúðalán bankanna til ríkisins. Ríkisstjórnin ætlar að tryggja stöðu allra innistæðueigenda.