Margrét Lára Viðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir
NÝJU bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu kvenna, WPS, mun verða sjónvarpað á fótboltarás FOX-samsteypunnar og ná til 34 milljóna heimila í Bandaríkjunum.

NÝJU bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu kvenna, WPS, mun verða sjónvarpað á fótboltarás FOX-samsteypunnar og ná til 34 milljóna heimila í Bandaríkjunum. Samningur þessa efnis var kynntur á mánudag og gildir hann næstu þrjú ár með möguleika á framlengingu um eitt ár. FOX mun að jafnaði sýna frá einum leik í hverri leikviku þegar deildin fer af stað næsta vor og hefur verið að ákveðið að leikirnir fari fram á sunnudagskvöldum. Þá munu leikir í úrslitakeppni deildarinnar, sem fram fara í ágústmánuði, verða sýndir á rás sem nær til yfir 80 milljóna heimila í Bandaríkjunum.

Mikið hefur verið lagt í að gera WPS að stærstu og bestu kvennadeild heimsins og er sjónvarpssamningurinn stór þáttur í því. Félögin sjö sem leika munu í deildinni róa nú að því öllum árum að fá bestu leikmenn heims til sín. Þar á meðal er Los Angeles sem fékk réttinn til að reyna að semja við Valskonuna Margréti Láru Viðarsdóttur.