[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Picasso hafði áhrif á starfsbræður sína víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Nú hefur verið sett upp sýning á verkum íslenskra listamanna frá ýmsum tímum þar sem áhrifa hans gætir.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Spænski listamaðurinn Pablo Picasso hefur haft margvísleg áhrif á íslenska starfsbræður sína eins og sjá má á sýningunni Picasso á Íslandi í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður hafði veg og vanda af því að velja verkin á sýninguna.

„Ég vildi frekar velja verk sem væru eins konar „hommage“ (virðingarvottur) til Picasso en það sem mætti kalla stælingar. Það er náttúrlega til fjöldinn allur af beinum stælingum en þær eru ekki eins áhugaverðar,“ segir Helgi Þorgils.

Eitt verk eftir Picasso sjálfan er á sýningunni, styttan Jacqueline með gulan borða. 26 íslenskir listamenn eiga hin verkin sem eru frá ýmsum tímum.

Áhrif með ólíkum hætti

Elsta verkið sem er eftir Jón Stefánsson er líklegast frá öðrum áratug síðustu aldar en yngsta verkið er eftir Valgerði Guðlaugsdóttur.

Helgi Þorgils bendir á að áhrif Picasso liggi sem þráður gegnum list 20. aldarinnar en að þau komi fram með ólíkum hætti hjá yngri listamönnum og þeim eldri. „Hjá yngri listamönnum koma áhrifin frekar fram sem hugmynd um Picasso en að þeir beiti sömu aðferðum og hann.“

Listasafn Árnesinga er opið frá fimmtudegi til sunnudags kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis.