Í gær samþykkti þorri alþingismanna frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Í gær samþykkti þorri alþingismanna frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Lögin veita opinberum aðilum heimild til þess við sérstakar aðstæður að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki. Nú þegar þetta er skrifað hefur heimild laganna verið nýtt að því marki að stjórn Landsbankans hefur verið sett af. Jafn víðtæk þjóðnýtingarheimild og felst í lögunum er fáheyrð í markaðsþjóðfélagi. Heimildin er þó ekki fyrir hendi nema við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Ég hefði kosið að heimildir laganna yrðu takmarkaðar við ákveðna fjárhæð sem verja mætti af peningum skattgreiðenda. Einnig að gildi laganna yrði markaður stuttur tími.

Setning neyðarlaganna svokölluðu er birtingarmynd óleysanlegs vanda bankanna án íhlutunar ríkisins. Hvað veldur því að bankar sem hafa skilað hundraða milljarða hagnaði á síðustu árum eru svona illa settir? Voru það mistök stjórnendanna sem leiddu til þessa eða voru það utanaðkomandi atburðir? Við umræður á Alþingi og manna á meðal var lögð á það áhersla að ekki ætti að leita að blórabögglum heldur ætti þjóðin sameinuð að sækja fram og sigrast á þeim erfiðleikum sem nú eru fyrir hendi og sýnilega framundan.

Ekki skal dregið úr því að nauðsyn ber til þjóðarsamstöðu að vinna sig út úr þeim vanda sem upp er kominn. Það má þó ekki og getur ekki þýtt að hinar talandi og skrifandi stéttir í þessu þjóðfélagi eigi að fara að dæmi strútsins og stinga höfðinu í sandinn ef einhver hætta steðjar að. Á sama hátt og brýna nauðsyn ber til þess að þjóðin sýni samstöðu í þeim vanda sem við er að etja ber líka brýna nauðsyn til að fara yfir söguna, átta sig á því hvað fór úrskeiðis og láta sér mistök liðinna ára að kenningu verða.

Að hluta til tel ég mistök íslensku bankanna og vestræns fjármálakerfis felast í því að búin voru til verðmæti til veðsetningar sem eru vægast sagt vafasöm eða jafnvel ekki til. Stofnuð voru fyrirtæki sem á pappírnum voru mikils virði en áttu ekki fyrir skuldum þegar nær var skoðað. Hætt er við að ýmsir íslenskir vogunarsjóðir séu og/eða hafi verið því marki brenndir alveg eða að hluta. Önnur fyrirtæki eins og sum fyrirtæki með uppruna í Delaware í Bandaríkjunum tóku sér heimild vegna falskra væntinga almennings til að stunda einskonar seðlaprentun sem engin innistæða var fyrir og hluthafarnir tapa öllu sínu. Dæmi um slíkt fyrirtæki er Decode Genetics sem núverandi seðlabankastjóri vildi rétta margra milljarða ríkisábyrgð á sínum tíma sem nú væri fallin á skattgreiðendur hefði hann fengið að ráða.

Við Frjálslynd höfum haldið því fram í mörg ár að við yrðum að breyta um peningamálastefnu og tengjast stærra myntkerfi. Við höfum krafist afnáms verðtryggingar og vaxtaokurs. Við höfum bent á að ofurlaun og bruðl í ríkis- og bankakerfi væri óásættanlegt. Nú er komið að tíma uppgjörsins. Nú verður að breyta um stefnu. Það þarf að endurskoða lög um Seðlabanka og hafa aðeins einn bankastjóra og láta hann bera ábyrgð á gerðum sínum. Við þurfum að koma allri framleiðslugetu þjóðarinnar í gang til að standa undir því tjóni sem við verðum fyrir vegna strandsiglingar fjármálakerfisins. Við þessar aðstæður er það eðlileg krafa að þjóðin sem þarf að borga fyrir öll mistökin fái þjóðarauðlindirnar til sín, fiskveiðiheimildirnar og orkuna í iðrum jarðar og fallvötnunum og myndaður verði auðlindasjóður vegna arðs af náttúruauðlindum landsins. Sjóður sem borgi mistök síðustu ára og geti verið bakhjarl til nýrrar sóknar þjóðarinnar til bættra lífskjara.

Höfundur er alþingismaður.