Sigríður Ingibjörg Eyjólfsdóttir fæddist á Bjargi í Borgarfirði eystra hinn 30. júlí 1921. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 17. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Bakkagerðiskirkju 25. september.

Elsku besta amma, þá er komið að leiðarlokum hjá þér og við verðum að skilja um hríð en þú hefur skilið okkur eftir með fullt af yndislegum minningum sem við getum nú leitað huggunar í.

Þú varst alltaf svo þolinmóð við okkur og góð og nenntir endalaust að leika við okkur eða spila. Þú kenndir okkur svo mikið af ljóðum og okkur fannst óskaplega gaman að hlusta á sögur af álfum, huldufólki og tröllum.

Og góðar eru nú líka minningarnar um allar fjallgöngurnar sem við þrjár fórum í og þú fræddir okkur um fjöll og blóm og sagðir okkur sögur úr firðinum okkar.

Við söknum þín sárt elsku amma en það er huggun í að vita að núna líður þér vel og þúr ert komin aftur heim í fjörðinn fagra.

Lítill drengur lófa strýkur

létt um vota móðurkinn,

– augun spyrja eins og myrkvuð

ótta og grun í fyrsta sinn:

Hvar er amma, hvar er amma,

hún sem gaf mér brosið sitt

yndislega og alltaf skildi

ófullkomna hjalið mitt?

Lítill sveinn á leyndar-dómum

lífs og dauða kann ei skil:

hann vill bara eins og áður

ömmu sinnar komast til,

hann vill fá að hjúfra sig að

hennar brjósti sætt og rótt.

Amma er dáin – amma finnur

augasteininn sinn í nótt.

Lítill drengur leggst á koddann

– lokar sinni þreyttu brá

uns í draumi er hann staddur

ömmu sinni góðu hjá.

Amma brosir – amma kyssir

undurblítt á kollinn hans.

breiðist ást af öðrum heimi

yfir beð hins litla manns.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Ýrr og Sif.