Liberty, eftir Garrison Keillor. Viking gefur út. 257 bls. innb.

ÞAÐ ER í senn kostur og galli við bækur Garrison Keillors að bækur hans eru allar svo sviplíkar að þær eru nánast eins. Hængurinn er sá að í bækurnar sækir maður ekki nýjan sannleik eða nýjan skilning, en á móti kemur að í þeim felast sígild sannindi og maður veit alltaf að hverju maður gengur, ekki síst þegar hann er að skrifa um líf fólks við Wobegon-vatn líkt og hann gerir í bókinni Liberty , sem hér er gerð að umtalsefni.

Liberty segir frá Clint Bunsen sem hefur verið eins konar upplýstur einvaldur í fjórða júlí-nefnd Wobegon-bæjar til margra ára og haldið lifandi þeim sið að fara í mikilfenglegar skrúðgöngur með fílum og fáklæddum söngkonum og ljúka öllu saman með magnaðri flugeldasýningu. Í sem skemmstu máli: Clint Bunsen er brjóstvörn gamalla tíma, þeirra tíma þegar allir lögðust á eitt til að heiðra bæinn sinn, þegar bæjarbúar voru stoltir af bænum sínum og landi sínu.

Málið er bara það að Bunsen er að andæfa í straumi breytinga sem enginn fær við ráðið og ekki bætir úr skák að honum hafa borist upplýsingar um uppruna hans sem stangast á við allt það sem hann hefur áður haldið, hann er rétt að verða sextugur og hefur að auki fallið fyrir sér mun yngri fegurðardís – hvað var það annars sem hann vildi gera með líf sitt?

Clint Bunsen er kunnugleg persóna úr sagnabálki Keillors og víst eru legíó bækur um miðaldra menn með gráan fiðring. Því er og ekki að neita að framvinda sögunnar er líka fyrirsjáanleg, en Keillor er þó svo lipur penni, svo fínn stílisti, að hver einasta bók sem hann skrifar er afbragð og Liberty þar með talin.

Árni Matthíasson