Þjónusta helstu velferðarstofnana samfélagsins verður efld vegna efnahagsástandsins í landinu.

Þjónusta helstu velferðarstofnana samfélagsins verður efld vegna efnahagsástandsins í landinu.

„Við erum ekki að tala um að opna útibú hringinn í kringum landið, heldur nýta þann her manna sem eru sérfræðingar á þessum sviðum innan velferðarsamfélagsins,“ segir Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.

Hann bendir á Vinnumálastofnun sem sér um atvinnuleysisskráningar og atvinnuráðgjöf, Vinnueftirlitið sem taki á streituþáttum á vinnustöðum, Tryggingastofnun og samskipti hennar við eldri borgara og öryrkja, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem liðsinnir þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum, Íbúðalánasjóð og úrræði hans og fjölmenningarsetur sem geti komið upplýsingum til innflytjenda um það sem er að gerast.

„Þessar stofnanir munu efla og samræma sitt starf og þær eru tilbúnar að taka við því álagi sem þetta hefur í för með sér. Ef einhver þarf til dæmis andlega aðstoð þá hefur Rauði krossinn tekið vel á móti þeim sem eru í slíkum vanda,“ greinir Hrannar frá og bendir um leið á að heilbrigðisráðherra hafi beðið heilbrigðisþjónustuna að vera í viðbragðsstöðu.

Að sögn Hrannars hefur álagið hjá stofnunum velferðarkerfisins farið vaxandi undanfarnar vikur. Fundað var á sunnudaginn um eflingu þjónustunnar og í gær voru allar stofnanirnar undir félagsmálaráðuneytinu í viðbragðsstöðu.

ingibjorg@24stundir.is

Í hnotskurn
Allar stofnanir undir félagsmálaráðuneytinu eru tilbúnar að veita ráðgjöf og þjónustu vegna efnahagsþrenginga. Samræma á aðstoð milli ráðuneyta.